Palestínsk menning

Hér má finna stutta kynningu á palestínskri menningu. Hér er að finna bæði palestínsk ljóð og íslensk ljóð er tengjast málefnum Palestínu. Nokkrar uppskriftir gefa smjörþefinn af palestínskri matargerð. En fyrst ætlum við að benda ykkur á tvær palestínskar kvikmyndir.

Palestínskar kvikmyndir

Guðleg íhlutun (Divine Intervention) er kvikmynd eftir Elia Suleiman frá 2002 sem vakti mikla athygli og hefur hlotið mikið lof. Í henni segir frá samskiptum Palestínumanna og Ísraela, og hvernig daglegt líf er undirorpið áhrifum hernámsins. Frásagnarstíll myndarinnar er á köflum kómískur og jaðrar við súrrealisma.

Börn Örnu (Arna’s Children) er heimildamynd sem segir frá Örnu Meir, ísraelskri baráttukonu fyrir friði og mannréttindum í Palestínu sem rak skóla á Vesturbakkanum. Hún heimsótti Ísland á sínum tíma í boði félagsins en er nú látin.

Palestínsk matargerð

Musakhan

(handa fjórum)

Hráefni:

1 kjúklingur, hlutaður í fernt

1½ tsk. malað sumac

Klípa af möluðum hnetum

Klípa af möluðum kanil

¼ tsk. nýmalaður svartur pipar

Salt

Safi úr einni sítrónu

450 grömm fínt skorinn rauðlaukur

2 mtsk. ólífuolía

½ bolli kjúklingakraftur

brauð

¼ bolli ristaðar hnetur

Aðferð

  1. Þvoið kjúklinginn og þurrkið.
    Fjarlægið óþarfa fitu.
  2. Blandið saman sumac, kryddi og salti. Geymið 2 tsk. af kryddblöndunni, en blandið restinni út í sítrónusafann. Nuddið í kjúklinginn og marínerið í sólarhring.
  3. Snöggsteikið laukinn í ólífuolíunni og bætið helmingnum af kjúklingakraftinum út í, sem og því sem eftir er af kryddinu og ögn af salti. Setjið lok á og sjóðið varlega í 30 mínútur.
  4. Hitið ofn í 200 gráður celsíus.
  5. Komið kjúklingnum fyrir á ofnplötu og hyljið með laukblöndunni.Setjið álpappír utan um og hafið í ofninum í 20 mínútur. Berið olíu á ofnplötu, setjið brauðið á ásamt með því sem eftir er af kraftinum. Setjið kjúklingapartana á laukinn og brauðið og setjið á ný í ofninn í 20 mínútur eða þangað til þeir eru vel brúnaðir. Borðist með hnetum.

Fleiri palestínskir réttir

Forréttir og meðlæti (á ensku)

Salöt (á ensku)

Aðalréttir

Eftirréttir

Palestínsk ljóð

Ljóð úr Filistínu

Ljóðaþýðingar Eyvindar P. Eiríkssonar

Birtust í: VERTU. Útgefandi: Andblær (Eyvindur P. Eiríksson 1998)


FADWA TUQAN

F. 1917, gaf fyrst út 1955 rómantísk og hefðbundin ljóð en síðar urðu stjórnmál æ sterkari þáttur í ljóðum hennar. Hún hefur haft mikil áhrif á yngri skáld.

LOFSÖNGUR UMBREYTINGARINNAR

I (1967)

Meðal þeirra var barn

sem leit allt

undrandi augum:

fullt tungl,

kyndil,

bunulind,

kött sem læddist

en varð fyrir truflun og flýði

með skuggann sinn upp í krónur pálmans

Og þar á meðal voru drengir,

óvanalegir ormar

sem léku að kínverjum og púðurkerlingum

og með sveitum sínum klifu þeir vestanvindinn

í bláum, rauðum eða grænum drekum –

strákar sem stríddu körlunum

á strætum og torgum;

sem létu illa undir svölunum, blístrandi

hoppuðu um og slógust,

stunduðu strákapör,

fleygðu hnetuskurni og hlátrasköllum hver í annan

börðust sverðum og lensum með prikum sínum

og íklæddust sögulegum hetjuhlutverkum:

– Þessi þarna er Antara, svarti riddarinn:

„Frelsið eða dauðann“

Og hann er Ezzel Din al-Qassam, sjeikinn

sem leiðir baráttuna í skógum fjallsins,

og hann er hetjan Abdul Qader við al-Qastal,

sem nærist á ást til lands síns

Og meðal þeirra voru þeir, sem enn voru

ekki annað en samruni í frjóbeði lífmóðurinnar

II

Ógnvænt er andlit júnímánaðar

Bölvunina dregur upp og svart

regnið fossar við sjónhring

Sveimar engisprettanna streyma

úr hjálmum hermannanna

Jörðin missir fótfestu sína og hrapar

í hyldýpismyrkrið

Fljót tímans fer þuklandi

limlestan líkama hennar,

skríður, hrollskelfur og snýr frá

Handan sjónhringsins er fljótið

æðandi hestur

og í báðar síður hans

skýtur vakan rótum

III (1976)

Þeir uxu í beiskum skugga kaktussins

og í sinnuleysi næturinnar

Þeir uxu hraðar en árin

eins og hennarunnarnir

og sólrósirnar

Þeir uxu í innyflum ófreskjunnar

eins og kyrrt auga fárviðrisins

Þeir uxu upp til brennandi reiði

á snúningsmarki sjónhringsins . . .

(Antara var hetja og skáld fyrir tíma íslams. Ezzel Din al-Qassam barðist mót Englendingum 1936-39. Abdul Qader al-Husseini barðist í frelsisstríðinu gegn Ísraelum og féll við al-Qastal.)


SAMIH al-QASIM

F. 1939 af Drúsaþjóð. Rekinn úr starfi og oft fangelsaður vegna stjórnmálaskoðana. Nú blaðamaður í Haifa. Verk hans fjalla mjög um frelsisbaráttu Palestínumanna.

DONN HÚAN OG GYÐJA ELDSINS

Sverð mitt.

Glófar mínir.

Hattur minn,

svört gríma mín

KUFLINN OG KLUKKAN

Ég kveð það allt í aftureldingu og deili út

til ungra riddara á vegi ástríðunnar:

Háværra kveinstafa blóðsins

Ég skipti öllum ástkonum mínum á þessa smáu elskhuga –

öllum nema gyðju eldsins

Hjá henni dvelst ég til loka tímans

og hún skal dveljast hjá mér allt til dauða míns á múrunum

Hungur mitt eyðir,

vínið og hveitið eru blóð mitt

Kom þú þá, ástin mín, gyðja lífsins,

að leita sæmandi dauða á vígslóð heiðursins,

leita hnífstungu ástarinnar,

leita dauða, sem er okkur æðri:

Dauða á múrunum!


KHAYRI MANSUR

F. 1945. Ísraelar ráku hann af hernámssvæðum sínum og hann flýði til Bagdad. Ljóð hans fást einkum við hraðfleygan tímann og harmsögu Palestínumanna.

ELSKENDUR

Enginn treystir elskendum

Kaffihúsin lokast þeim stundvíslega

og leigubílana þrýtur eftir miðnætti

Nóttin sjálf trúir þeim ekki, hún

dregst snemma úr görðunum inn í svefnherbergin,

þar sem veggirnir kveinka sér undan þunga rammanna

Gagnvart dauðanum eru kistur þeirra,

eins og annarra, þröngar


MAHMUD DARWISH

F. 1942, höfuðskáld Palestínumanna í andspyrnu þeirra gegn kúgurunum, Ísraelum. Fósturjörðin er aðalþema ljóða hans, sem mörg eru sungin sem baráttuljóð. Hann var lengi í fangelsi og útlegð, síðan á heimastjórnarsvæðunum, en mun nú búa í Ramallah í Palestínu.

ELOI, ELOI, LEMA SABAKTANI?

Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Hvers vegna kvæntistu Maríu?

Hví héstu hermönnunum einasta víngarði mínum? Ég sem er ekkja

Ég er fædd úr þessari þögn, fædd af burtreknu orði þínu

Hví hefur þú yfirgefið mig, Guð minn, Guð minn, hví kvæntistu Maríu?

Þú talaðir í orðum, og taldir tvær þjóðir á að fæðast úr sama axi

Og þú fastnaðir mig einni hugsun, og ég hlýddi, viss um visku þína

Hefurðu hafnað mér? Eða fórstu til að lækna einhvern annan, óvin minn

handan höggstokksins?

Hefur minn líki rétt til að óska sér Guðs sem maka, og spyrja Eloi, Eloi,

lema sabaktani?

Hví kvæntistu mér, Guð minn? Hví kvæntistu Maríu?

VIÐ FERÐUMST EINS OG ANNAÐ FÓLK

Við ferðumst eins og annað fólk, en snúum ekki aftur til neins líkt og

ferðalagið væri vegur skýsins

Við höfum grafið ástvini okkar í skugga skýsins, milli trjárótanna og hvatt

konur okkar: Haldið áfram að fæða börn í hundrað ár svo við getum lokið

þessari ferð til lands einnar stundar, til eins metra hins ógerlega. Við

ferðumst í vögnum sálmanna, sofum í tjöldum spámanna okkar og stingum upp

kollinum í orðatiltækjum Förufólksins

Við mælum geiminn með nefi stríðsfuglsins eða syngjum til að reka brott

fjarlægðina og þvo tunglskinsgeislana hreina

Vegur þinn er langur, og megi þig dreyma sjö konur til að bera leiðina

löngu á herðum þínum, og hristu pálmana handa þeim til að kynnast nöfnum

þeirra og þeirri móður sem á að fæða strákinn úr Galíleu

Við eigum land orða. Talaðu, talaðu svo ég megi leggja veg minn um grjót

Við eigum land orða. Talaðu, talaðu svo við fáum greint lokaáfanga þessarar

ferðar

– Ljóðaþýðingar Eyvindur P. Eiríksson


Íslensk ljóð

BÖRNIN SEM LIFA Í BEIT HANOUN

Á friðsælum degi við fuglanna söng,

frjáls hlaupa systkin um tún.

Brosandi sólin bregður þá geislum

á börnin sem lifa í Beit Hanoun.

Blíðlega móðir þau kyssir á kinn

er kvöldar og hlýjan sinn dún

breiðir þau yfir og ber sína ást

á börnin sem sofa í Beit Hanoun.

En skjótt heyrast stúlku frá skelfileg óp

er skothríðar mark verður hún.

Bær hennar logar er blóðdropar falla

á börnin sem deyja í Beit Hanoun.

Þá fölna öll fegurstu blómin um stund,

fold eignast augun svo brún.

Blæinn hann stillir er blómsveigur fellur

á börnin sem kveðja í Beit Hanoun.

En gjöfin til okkar frá Guði er sú

að nýr dagur rís fyrir rún.

Ber jarðar spretta og bjartsýni glóir

á börnin sem fæðast í Beit Hanoun

Og á friðsælum degi við fuglanna söng,

frjáls hlaupa systkin um tún.

Brosandi sólin bregður þá geislum

á börnin sem lifa í Beit Hanoun.

Bjarni Þór Sigurbjörnsson, 1989-

BLÓÐGRJÓT (PALESTÍNA)

Þú hlóst er ég reyndi að verjast

kúlnahríð þinni með grjóti.

Þú hlóst hærra þegar þú sást að

ég gat ekki varist.Þú hlóst hæst

er ég bað um frið.En hverskonar

friður er það þegar þú hefur tekið

allt mitt og gert sem þitt.

Atman, 1978-

SVAR FRÁ ÍSRAEL

Arabarnir klaga og kveina

og krakkar þeirra elta okkur með steina

Við getum ekki svarað þeim sí svona

við sendum flugvélar með sprengjur, góða kona.

Að ég hafi myrt arabadreng

eins og um var kvartað.

Ég gerði honum ekkert

sendi bara kúlu gegnum hjartað.

Gunnar Valdimarsson 2000