Útifundarræða á Lækjartorgi 9. júlí 2010

Föstudagur 9. júlí 2010 | Sveinn Rúnar Hauksson

Kæru félagar, ágætu fundarmenn!

Í dag eru 6 ár liðin síðan Alþjóðadómstóllinn í Haag felldi úrskurð sinn um aðskilnaðarmúrinn sem Ísraelsstjórn hefur látið reisa á palestínsku landi og kallar öryggisgirðingu. Múrinn er ólöglegur, hann á að rífa og Ísraelsstjórn ber að rífa hann og greiða íbúunum bætur sem borið hafa skaða af þessari óhugnanlegu byggingu sem lokar íbúana víða inni einsog dýr, rænir landi þeirra og eyðileggur eðlilegar og nauðsynlegar samgöngur. Þetta var úrskurður Alþjóðadómstólsins, jafnframt sá að þjóðum heims beri skylda til að sjá til þess að Ísrael fari að þessari dómsniðurstöðu. Ég gleymi ekki þessum degi, 9. júlí 2004, þar sem ég var staddur í A-Ram, bæ á milli Jerúsalem og Ramallah, í tjaldi fullu af ísraelskum og palestínskum baráttumönnum fyrir friði og mannréttindum. Allra augu beindust að sjónvarpstæki í einu horni tjaldsins, þar sem heyra mátti úrskurðinn, lesinn upp. Mikill fögnuður ríkti í tjaldinu. En fljótt varð ljóst að úrskurðurinn breytti engu um framferði Ísraelsríkis. Og lítið fer fyrir þeirri eftirfylgd sem alþjóðasamfélaginu var ætlað að sjá um. Ísraelsstjórn hefur óhindruð haldið áfram byggingu múrsins og skeytir engu um alþjóðadóma né lög.

Ísraelsstjórn hefur látið einsog Alþjóðadómstóllinn sé ekki til, alla vega komi hann Ísrael ekkert við. Ísraelsríki hefur sýnt það af sér frá upphafi vega, að þeim koma alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna ekkert við. Þetta ríki sem grundvallast á aðskilnaðarstefnu þar sem ein trúarbrögð eru öðrum æðri, og þar sem þeir sem tilheyra Jehóva-trú og eru af slíkum komnir í kvenlegg, hafa ríkuleg forréttindi umfram aðra, einkum og sérílagi umfram þá sem fæddir eru í Palestínu og eru afkomendur fólks sem lifað hefur af því landi í þúsundir ára. Það  fólk á helst að koma sér burt, það er í raun réttdræpt í sínu landi, að mati innrásarliðsins sem er smám saman að leggja hina sögulegu Palestínu undir gyðingaríkið Ísrael.

Oftast ríkir þögn í vestrænum fjölmiðlum um Palestínu, grimmdina og niðurlæginguna sem stöðug helst þegar grimmdaræðið kemst á sérlega hátt stig og mannfall í röðum Palestínumanna fer að skipta hundruðum eða þúsundum að við fáum fréttir. Varðandi mannfall Ísraelsmanna og útlendinga þarf miklu lægri tölur til að úr verði fréttir. Þar dugir jafnvel talan einn.En nánast á hverjum degi er verið að myrða íbúa herteknu svæðanna, eyðileggja heimili þeirra, aldingarða og lífsviðurværi, meina þeim að komast leiðar sinnar, hindra viðskipti þeirra innbyrðis og við önnur lönd og gera í stuttu máli allt til að líf þeirra í landi sínu verði vonlaust.

En Palestínumenn hafa ekki gefist upp, merkilegt nokk. Staðfesta þeirra og þrautseigja, SUMUD á arabísku, er undraverð og hún mun skila sigri að lokum. Í 62 ár hafa þeir mátt búa við hörmungar hernáms og landflótta og í júní-byrjun voru 43 ár liðin síðan allt land þeirra var hertekið af Ísraelsher. Samningar 1993 sem kenndir voru við Osló, vöktu vonir margra. Þeir áttu að leiða til sjálfstæðs ríkis Palestínu á um fimmtungi upphaflegs lands Palestínumanna, það er á Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Það hefur allt verið svikið. Hér er þó um að ræða stórkostlega sögulega eftirgjöf gagnvart Ísrael, að sætta sig við einungis 22% af upphaflegu landi sínu. Þessa málamiðlun hafa Hamas samtökin líka fallist á og í raun viðurkennt Ísraelsríki innan landamæranna frá 1967, grænu línunnar.

Og þótt talað sé um sjálfstjórn og palestínsk yfirvöld í Ramallah og ríkisstjórn í Gaza, þá eru þetta ekkert annað en sveitastjórnir og ekki einu sinni það, því að hvenær sem henta þykir ræðst Ísraelsher inn á palestínsku svæðin sem eru á Vesturbakkanum útötuð í landránsbyggðum Ísraelsmanna. Ofbeldi landránsliðsins, svokallaðra landnema, gagnvart íbúunum verður sífellt skelfilegra og er á vissan hátt enn verra en hersins.

Augu okkar hafa eðlilega beinst að Gaza þar sem kúgun hernámsins er grimmnust. Það er villandi að tala um að Hamassamtökin hafi tekið völdin á Gaza fyrir þremur árum. Rétt er, að í júní 2007 voru öryggissveitir Fatah afvopnaðar í átökum milli þeirra og Hamas eða lögreglusveita ríkisvaldsins á Gaza. En ekki má gleyma því að Hamas þurftu ekkert að taka völdin 2007, þeir höfðu náð völdunum í lýðræðislegum kosningum 2006 þar sem Hamas fékk um 60% þingmanna á löggjafarsamkomunni og var þvi falið af Abbas forseta að mynda stjórn. Sumum kann að þykja þetta smáatriði en svokölluð valdataka Hamas er notuð sem átylla til að réttlæta einangrun íbúa Gazasvæðisins sem varð alger eftir þessa atburði fyrir þremur árum. Grimmdin sem íbúar Gaza mega búa við af völdum Ísraels er nánast ólýsanleg. Hún náði vissu hámarki á þremur vikum í kringum áramótin í fyrra þegar Ísraelsher beitti miskunnarlausum loftárásum, þar á meðal fosfórsprengjum og stórskotaárásum af sjó og landi á óbreytta íbúa. Meira en 1400 manns voru myrtir og þar af 313 börn. Við fengum fréttir þá, en svo kom þögnin, enda þótt grimmdin héldi áfram, með umsátri og algerri einangrun þar sem aðeins litlu broti af lífsnauðsynjum var hleypt í gegn á vegum hjálparstofnana. Fólk var vatnlaust, rafmagnslaust, vantaði mat og lyf, eldsneyti, byggingarefni til að gera við eyðilögðu heimilin. Og herinn hélt áfram að gera árásir og drepa mann og annan. En þetta þótti sjaldnast fréttnæmt.

Þar til árásin var gerð á hjálparskip mannúðar og friðar, frelsis-skipadeildina til Gaza, og 9 óvopnaðir friðarsinnar myrtir. Þá fengu ýmsir sig fullsadda af framferði Ísraelsríkis, fólk sem hafði í lengstu lög reynt að réttlæta gerðir þess. Nú þykjast Ísraelsmenn vera sjá að sér, hafa skipað eigin rannsóknarnefnd en hafna alveg alþjóðlegri rannsókn. Þeir hafa nú gefið út bannlista yfir vörur sem ekki má flytja til Gaza í stað þess að allt var bannað nema örfáar tegundir sem flytja mátti inn. Á bannlistanum er fjöldi nauðsynja og það sem meiru skiptir er, að það verður áfram umsátur og allt undir grimmri stjórn Ísraelshers. Hafnbann, flugbann og samgöngubann. Ekki verður leyft að flytja út vörur frá Gaza og ferðabann ríkir áfram, fólkið er innilokað, kemst ekki til skyldmenna á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem, og ekki til náms né starfa þar.

Á Alþingi var samþykkt álykun hjá utanríkismálanefnd daginn eftir árásina, en nefndin fundaði samdægurs og var formanni félagsins boðið á fundinn í fyrsta sinni í 23 ára sögu félagsins. Allir flokkar fordæmdu framferði Ísraelshers, og meirihluti nefndarinnar – allir nema Sjálfstæðisflokkur samþykktu að fylgja fordæmingunni eftir með því að senda utanríkisráðherra til Gaza mð hjálpargögn en einnig það var fleira. Þessi ágæta ályktun hefur varla birst nokkurs staðar ég er efins um að hún hafi einu sinni verið send viðkomandi ríkisstjórnum. Hún er ekki löng og þess virði að vera lesin.
Bókun utanríkismálanefndar 1. júní 2010 hljóðaði svo:

Meiri hluti utanríkismálanefndar fordæmir harðlega árás ísraelska hersins á tyrkneskt skip í skipalest á alþjóðlegri siglingaleið með hjálpargögn til Gazasvæðisins. Árásin er brot á alþjóðalögum. Það stríðir gegn réttlætiskennd manna, að hindra með ofbeldi að hjálpargögn berist fólki í neyð. Meiri hlutinn leggur áherslu á að mannréttindasáttmálar, samþykktir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög verði virt í hvívetna í hertekinni Palestínu, á Gaza og Vesturbakkanum, að meðtalinni Austur-Jerúsalem.

Meiri hlutinn ályktar að fela utanríkisráðherra, í samráði við utanríkismálanefnd, að skipuleggja ferð til Gaza svæðisins og að Ísland standi að því að senda hjálpargögn til að aðstoða heimamenn og sýna þannig andstöðu við herkvína sem Ísraelsmenn hafa sett á Gaza í trássi við alþjóðalög. Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi. Slit á stjórnmálasambandi við Ísrael kemur alvarlega til álita og er utanríkisráðherra falið að meta, í samvinnu við aðrar þjóðir, að úrræðum verði beitt sem talin eru áhrifaríkust til að knýja á um breytingar í samræmi við alþjóðalög, svo sem alþjóðlega samstöðu um viðskiptaþvinganir eða slit á stjórnmálasambandi við Ísrael, beri önnur úrræði ekki ávöxt.

Það er hlutverk okkar að þrýsta á um framkvæmd þessarar ágætu ályktunar sem hefur sennilega gengið lengra en annarra þjóðþinga á Vesturlöndum. Krafa okkar er sem fyrr: Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael – tafarlaust. Það er löngu fullreynt að ályktanir og tilmæli hafa ekkert að segja, þegar Ísraelssstjórn er annars vegar, sem sýnir það af sér aftur og aftur, að hún telur Ísrael hafið yfir lög og rétt. Enda fara Ísraelsmenn sínu fram án tillits til annarra, fullvissir um bakstuðning Bandaríkjanna sem beitir neitunarvaldi fyrir þá hjá Sameinuðu þjóðunum – eftir þörfum.

Dagurinn í dag er um allan heim helgaður samstöðu með sniðgönguhreyfingu sem farið hefur hratt vaxandi og náð til æ fleiri sviða viðskipta og menningarsamskipta. Forysta hennar er í Palestínu og hún er kennd við BDS, boycot-divest-sanction eða sniðgöngu, hætta fjárfestingum og beita efnahgaslegum refsiaðgerðum. Það var til þess tekið að fyrsti háskólinn í Bandaríkjunum sem tók ávörðun um að draga fjárfestingar til baka frá ísraelskum fyrirtækjum var sá sami og varð fyrstur til þess í baráttunni gegn apartheid-stjórninni í Suður-Afríku.

Félagið Ísland-Palestína hefur ákveðið að hefja nýtt átak vera þannig með í hinni alþjóðlegu samstöðuhreyfingu með prentun límmiða sem fara í verslanir og víða, KAUPUM EKKI ÍSRAELSKAR VÖRUR-stöðvum hernámið.

Það er okkur sérstök ánægja að geta í dag tilkynnt að fyrir nokkrum klukkustundum var opnuð endurnýjuð heimasíða félagsins, palestina.is. Hún verður lifandi hluti af starfi félagsins en líka því sem er að gerast í öðrum löndum, síðan er opnari en áður fyrir fréttum og greinum. Það er Hrafn Malmquist sem tekið hefur að sér vefstjórn en að undirbúningi auk hans hafa unnið Sigurbjörn Óskarsson og Hilmar Þór Jóhannesson grafískur hönnuður. Sé þeim öllum heiður og þökk.  Ekki mun okkur af veita að beita öllum ráðum til eflingar baráttu og samstöðu með Palestínu.

Kröfur dagsins verða að hljóma um allan heim. Burt með hernámið! Niður með múrinn! Kaupum ekki ísraelskar vörur! Frelsi fyrir Gaza! Frjálsa Palestínu!