Stefnuyfirlýsing Ungra aðgerðarsinna á Gaza

Miðvikudagur 26. janúar 2011 | Arnór Svarfdal

Hið nývirka félag ungra breytingarsinna á Gaza gaf út stefnuyfirlýsingu á Facebook síðu sinni (http://www.facebook.com/pages/Gaza-Youth-Breaks-Out-GYBO/118914244840679) og bað fólk að þýða hana á sem flest tungumál. Arnór Svarfdal hefur þýtt það yfir á íslensku.

Skítt með Hamas. Skítt með Ísrael. Skítt með Fatah. Skítt með Sameinuðu þjóðirnar. Skítt með flóttamannahjálpina. Skítt með Bandaríkin! Við, ungt fólk á Gaza-ströndinni, höfum fengið okkur fullsödd af Ísrael, Hamas, hernáminu, mannréttindabrotum og afskiptaleysi alþjóðasamfélagsins! Okkur langar að öskra og rjúfa múr þagnar, óréttlætis og afskiptaleysis, líkt og ísraelskar F16 flugvélar rjúfa hljóðmúrinn; öskra af öllum lífs- og sálarkröftum og losna við þá gríðarlegu reiði sem étur okkur að innan vegna þeirra fjandans aðstæðna sem við lifum við. Við erum eins og lýs milli tveggja nagla og lifum í martröð á martröð ofan, vonin býr hvergi, hvergi er pláss fyrir frelsi. Við erum komin með ógeð af því að vera föst í pólitískri deilu; ógeð af kolsvörtum nóttum þar sem flugvélar hringsóla heimili okkar; ógeð af því að saklausir bóndar séu skotnir við hernámsmærin þar sem þeir rækta landið sitt; ógeð af skeggjuðum mönnum gangandi um með byssur, misnotandi vald sitt, berjandi eða fangelsandi ungt fólk sem krefst þess sem það trúir á; ógeð af skammarmúrnum sem aðskilur okkur frá restinni af landi okkar og heldur okkur föngum á landspildu á stærð við frímerki; ógeð af því að láta líta á okkur sem hryðjuverkamenn og öfgamenn með heimagerðar sprengjur og ill augnaráð; ógeð af áhugaleysinu sem mætir okkur í alþjóðasamfélaginu og svokölluðum sérfræðingum í deilum og friðarsamningum sem gugna þegar kemur að því að framfylgja því sem samþykkt er. Við erum dauðþreytt á því að lifa ömurlegu lífi, vera í gíslingu í Ísrael, barin af Hamas og hunsuð af restinni af heiminum.

Bylting kraumar innra með okkur, óbærileg óánægja og reiði mun tortíma okkur nema okkur takist að virkja orkuna á þann hátt sem mun bjóða kyrrstöðunni byrginn og gefa okkur einhverja von. Dropinn sem fyllti mælinn og fékk hjörtu okkar til að skjálfa af reiði og vonleysi átti sér stað 30. nóvember þegar Hamas-liðar fóru með byssur sínar, lygar og ofbeldi til æskulýðssamtakanna Sharek, sem eru leiðandi æskulýðssamtök í Palestínu, hentu öllum út á götu, fangelsuðu suma og bönnuðu starfsemi Sharek. Nokkrum dögum síðar voru mótmælendur fyrir utan Sharek barðir og nokkrir fangelsaðir. Við lifum í sannri martröð á martröð ofan. Það er erfitt að koma orðum yfir þá pressu sem við lifum við. Við rétt þraukuðum Cast Lead hernaðaraðgerðina, þegar Ísraelar sprengdu okkur í tætlur, eyðilöggðu þúsundir heimila og enn fleiri líf og drauma. Þeir losnuðu ekki við Hamas, eins og ætlunin var, en þeim tókst að skelfa okkur fyrir lífstíð og gáfu öllum væna áfallastreitu, því við gátum hvergi flúið.

Við erum ungt fólk með þung hjörtu. Við berum innra með okkur svo mikil þyngsli að við eigum erfitt með að njóta sólarlagsins. Hvernig gætum við notið þess þegar óveðursský skyggja á sjóndeildarhringinn og hörmulegar minningar þjóta hjá er við leggjum aftur augun? Við brosum til að fela sársaukann. Við hlæjum til að gleyma stríðinu. Við vonum svo við fremjum ekki umsvifalaus sjálfsmorð. Í stríðinu fengum við það óhjákvæmilega á tilfinninguna að Ísraelar vildu þurrka okkur út af yfirborði jarðar. Síðastliðin ár hefur Hamas gert allt sem í þeirra valdi stendur til að stjórna hugsunum okkar, gjörðum og þrám. Við erum kynslóð ungs fólks sem er vant því að horfast í augu við eldflaugar, og reynum að vinna það óvinnandi verk að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi, rétt svo umborin af gríðarstórum samtökum sem dreyfa sér eins og krabbamein um samfélag okkar, valda óeirðum, drepa allar heilbrigðar frumur, hugsanir og drauma í leiðinni og lama fólk með ógnarstjórn sinni. Að ógleymdu því fangelsi sem við lifum í, fangelsi sem haldið er uppi af svokölluðu lýðræðisríki.

Sagan endurtekur sig á hræðilegan hátt og öllum virðist vera sama. Við erum hrædd. Við á Gaza-ströndinni erum hrædd um að vera fangelsuð, yfirheyrð, lamin, pyntuð, sprengd og drepin. Við erum hrædd við að lifa, af því að hvert einasta skref sem við tökum þarf að íhuga vandlega, alls staðar eru takmarkanir, við getum ekki hreyft okkur eins og við viljum, sagt það sem við viljum eða gert það sem við viljum, stundum getum við ekki einu sinni hugsað eins og við viljum vegna þess að hernámið hefur hernumið hug okkar og hjörtu svo illilega að okkur verkjar og langar að fella óendanleg tár reiði og heiftar!

Við viljum ekki hata, við viljum ekki finna þessar tilfinningar, við viljum ekki vera fórnarlömb lengur. Nú er nóg komið! Nóg komið af sarsauka, nóg komið af tárum, nóg komið af þjáningum, nóg komið af ráðríki, takmörkunum, óréttlátum réttlætingum, ógn, pyntingum, afsökunum, sprengjum, andvökunóttum, dauðum borgurum, svörtum minningum, vonlausri framtíð, hjartasárum, spilltri pólitík, öfgakenndum stjórnmálamönnum, trúarlegu kjaftæði og fangelsunum! Nú segjum við stopp! Þetta er ekki framtíðn sem við viljum!

Við viljum þrennt. Við viljum vera frjáls. Við viljum geta lifað eðlilegu lífi. Við viljum frið. Er það til of mikils ætlast? Við erum friðarhreyfing sem samanstendur af ungu fólki á Gaza-ströndinni og stuðningsfólki annars staðar í heiminum, og við munum ekki hvílast fyrr en allir í gjörvöllum heiminum þekkja sannleikann um Gaza og og þekki hann svo vel að aldrei framar verði þögult samþykki eða opinskátt afskiptaleysi liðið.

Þetta er manifest Ungra aðgerðarsinna á Gaza!

Við munum eyða hersetunni sem umkringir okkur, við brjótumst úr viðjum hugarhlekkjanna og endurheimtum reisn okkar og sjálfsvirðingu. Við berum höfuðið hátt jafnvel þótt á móti blási. Við munum vinna dag og nótt að því að breyta þeim hörmulegu aðstæðum við lifum við. Þar sem mæta okkur múrar byggjum við drauma.

Við vonum að þú – já, þú sem ert að lesa þessa yfirlýsingu núna – getir stutt okkur. Til að komast að því hvernig þú getur hjálpað, vinsamlegast skrifaðu á vegginn okkar eða hafðu samband við okkur á: freegazayouth@hotmail.com

Við viljum frelsi, við viljum líf, við viljum frið.
Frjáls æska á Gaza-strönd!
GYBO
Desember, 2010