Staðan í Palestínumálinu

Laugardagur 29. janúar 2011 | Sveinn Rúnar Hauksson

hádegisfundur Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Félagsins Ísland-Palestína í HÍ, 27. janúar 2011

Spurt er hver sé staðan í Palestínumálinu? Því er fljótsvarað. Hún er slæm ef markmiðið er réttlæti og friður. Hún er því sem næst vonlaus, að minnsta kosti um fyrirsjáanlega framtíð. Hvernig stendur á því? Mitt stutta svar er, að annar aðilinn hefur ekki áhuga á að ganga til raunverulegra friðarsamninga. Ísraelsríki ræður allri Palestínu, vill ekki aflétta hernámi og hætta landráni og jafnvel sá minnihluti ísraelsku þjóðarinnar sem skilur nauðsyn þess, getur ekki hugsað sér að leyfa palestínsku flóttafólki að snúa til heimkynna sinna á grundvellli alþjóðalaga og samþykkta Sameinuðu þjóðanna.

Síðustu daga hefur Aljazeera sjónvarpsstöðin verið að birta sína „Palestínu-pappíra“, á annað þúsund leyndarskjöl sem stöðin hefur opinberað, rétt einsog Wikileaks. Þau greina frá friðarferlinu svokallaða, og eru birt orðrétt ummæli hinna ólíku aðila af ótal fundum. Eitt af því sem upp úr stendur er hversu langt annar aðilinn, palestínsku samningamennirnir, hafa verið reiðubúnir að teygja sig í grundvallarmálum einsog um framtíð Jerúsalemborgar, um rétt palestínsks flóttafólks til að snúa heim aftur og fallast á frekari eftirgjöf á palestínsku landi á Vesturbakkanum. Við hafa bæst fréttir af samstarfi palestínsku leyniþjónustunnar á vegum Ramallah-stjórnarinnar við ísraelsku leyniþjónustuna og einnig þá bandarísku og bresku, CIA og MI 6. Það er dálítið annkannalegt fyrir mig að sjá og heyra þessu slegið upp sem stórfrétt, nokkru sem legið hefur ljóst fyrir um árabil. Það var á meðan Yasser Arafat forseti var enn við lýði sem samráðsfundum palestínsku og ísraelsku leyniþjónustunnar var komið á og CIA tók að sér fundarstjórn. Þetta hefur viðgengist um langt árabil, þótt einhver hlé hafi orðið á þegar illa hefur staðið í ból. Það hefur heldur ekki nein leynd verið yfir því hlutverki sem CIA og bandarískir hernaðarráðgjafar hafa átt í að þjálfa öryggissveitir og nýjar lögreglusveitir sem smám saman hafa látið til sín taka í öllum borgum á Vesturbakkanum með tilstuðlan ísraelska hernámsliðsins.

Ég minnist þess þegar þær komu til Nablus fyrir nokkrum árum og var í fyrstu falið að sinna löggæslu einungis til miðnættis. Ísraelsher tók við á nóttunni og hélt áfram sínum mannránum og drápum í skjóli myrkurs. Ég minnist þess að fólkið í Nablus talaði um að nú væri komið palestínskt hernám á daginn en ísraelskt á nóttinni. Nýverið hafa palestínsku lögreglusveitirnar einnig tekið við næturvaktinnni og ber hernámsliðinu að tilkynna þeim, þegar haldið er á mannaveiðar í borginni. Nú er talað um í Washington að góður árangur hafi náðst á Vesturbakkanum og er þá verið að tala um löggæslu. Hún hefur ekki síst falið í sér handtökur og pyntingar á pólitískum andstæðingum. Þá er ónefnt hvernig upplýsingar frá palestínskum samstarfsaðilum auðvelda Ísraelsher árásir, handtökur og morð, ekki síst á þeim sem grunaðir eru um aðild eða stuðning við Hamassamtökin.

Það eru þessi lögreglu- og öryggismál sem hafa verið helsti þrándurinn í viðræðum Hamas og Fatah, en þótt því svipi til, hvernig haldið er á lögreglumálum á Gaza og Vesturbakkanum, þá eru yfirvöldin á Gaza laus við að vera í nánu sambandi við hernámsliðið og helstu stuðningsríki óvinarins. Hluti uppljóstrananna núna greinir frá nánana samráð en vitað var um og stjórnvöldum í Ramallah er stillt upp sem hreinum quislíngum, samvinnuþýðum bandamönnum hernámsliðsins. Hætt er við að Abbas forseti hafi ekki séð fyrir endann á afleiðingum þessara uppljóstrana.

Ég hef varið dýrmætum mínútum í að greina frá málum sem eru ofarlega á baugi nú, vegna þess að þau tengjast því sem stendur í vegi fyrir gagnkvæmri virðingu og sáttum á milli stóru pólitísku stjórnmálaaflanna, Fatah og Hamas. Sá alvarlegi klofningur og bræðravíg sem orðið hafa þar á milli, er það sem helst hvílir á íbúum hertekinnar Palestínu og ekki síst á Gaza. *

Það hvíldi engin sérstök leynd yfir tilflutningi vopna og fjármuna frá Bandaríkjastjórn til öryggissveita Ramallah-stjórnvaldanna vorið 2007. Undir forystu „sterka mannsins“, Mohamed Dahlan, var lögreglu og örgyggissveitum stjórnvalda á Gaza ógnað. Það leiddi til blóðugs uppgjörs sem aðeins gat endað á einn veg, með sigri Hamas á Fatah. Þetta gat Ísraelsstjórn séð fyrir sem hafði stutt Hamas samtökin í upphafi þeirra árið 1987. Ísraelsmenn sáu í þeim mótvægi við Arafat, Fatah og PLO. Staðan sem upp kom í júní 2007, þegar alger aðskilnaður varð á milli Gaza og Vesturbakkans, var óskastaða þeir sem vilja deila og drottna.

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, sem var með okkur fjölskyldu sinni á ferð um Gaza yfir hátíðarnar, hitti að máli verkamenn sem voru að járnhreinsa og brjóta grjót úr sprengjurústum heimila til að breyta því í byggingarefni. Hún óskaði þeim árs og friðar og að nýju húsin mættu standa lengi. Þeir tóku undir óskir hennar um frið og farsæld á nýju ári, en mikilvægast væri að sættir næðust milli Hamas og Fatah!

Hverjum manni má ljóst vera að án þess að palestínska þjóðin komi fram sameinuð út á við, er tómt mál að tala um friðarferli. Á hinn bóginn megum við ekki líta hjá aðalatriði málsins sem er grundvallarstefna Ísraelsríkis og hefur verið frá upphafi, hernámið sem staðið hefur í meira en 60 ár og í bráðum 44 ár á allri hinni sögulegu Palestínu. Landránið heldur stöðugt áfram og ekkert fær stöðvað það, ekki einu sinni ofurvald Bandaríkjaforseta sem bað nýverið um þótt ekki væri nema nokkurra mánaða hlé svo að hægt væri að ræða málin. Engu skiptir hvað flokkar fara með völd, landtökubyggðirnar risu jafnvel hraðar í valdatíð Verkamannaflokksins í Ísrael meðan hann var og hét.

Er þá ekkert sem við getum gert, Ísland og Norðurlöndin? Dr. Yousef Moussa, framkvæmdastjóri Heilsustarfsnefndanna (UHWC), sem FÍP styður, svaraði því þannig að byggja yrði upp þrýsting á Bandaríkjaforseta til að hann gæfi Ramallah-stjórninni grænt ljóss á sættir við yfirvöldin á Gaza. Það er fyrsta skrefið. Utanríkisráðherra Íslands hefur notað sérhvert tækifæri á fundum með samstarfsaðilum á Norðurlöndum og í Evrópu til að fylgja eftir ályktun Alþingis frá því 1. júní síðastliðnum, að knýja á um breytta stefnu Ísraelsríkis í átt að alþjóðalögum og beita til þess viðskiptaþvingunum ef með þarf og íhuga alvarlega slit á stjórnmálasambandi ef annað dugir ekki. Ísland þarf líka að taka upp samband við stjórnvöldin á Gaza sem eru lýðræðislega kjörin og viðurkenna þannig í raun sjálfsákvörðunarétt palestínsku þjóðarinnar í samræmi við einróma stefnu Alþingis.

Tími tveggja-ríkja lausnarinnar er sennilega liðinn, þótt enn sé talað einsog hún komi til greina. Sennilega hafa ísraelsk stjórvöld aldrei ætlað sér að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu, framganga þeirra með látlausu landráni og hernaði gegn palestínsku þjóðinni bendir ekki til annars.

Abbas forseti og PLO hafa verið að ná árangri á diplómatíska sviðinu með viðurkenningu ríkja Suður- Ameríku á sjálfstæði Palestínu og rjúfa þannig þá pattstöðu sem afstaða Ísraelsríkis veldur. Þar er þráðurinn tekinn upp frá 1988 þegar Arafat forseti las upp sjálfstæðisyfislýsinguna 15. nóvember og Sameinuðu þjóðirnar fluttu Allsherjarþingið frá New York til Genfar til að hlýða mætti á ræðu Arafats sem fékk ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Hann var jú stimplaður hryðjuverkamaður og Frelsissamtök Palestínu, PLO hryðjuverkasamtök, rétt einsog Hamas og PFLP núna. Meirihluti aðildarríkjanna viðurkenndi á skömmum tíma Palestínu en síðan hefur lítið gerst þar til nú í þeim málum.

En mikilvægi yfirlýsingarinnar fólst einnig í því sem stóð á milli línanna. Með því að lýsa yfir sjálfstæði Palestínu á svæðinu sem hertekið var 1967, Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem var verið að viðurkenna Ísraelsríki innan vopnahléslínunnar frá 1949, grænu línunnar. Það eru einu alþjóðlega viðurkenndu landamæri Ísraels, þótt það ríki hafi aldrei verið reiðubúið að fastsetja ákveðin landamæri, né viðurkenna Palestínu.

Það var svo 15 árum síðar eða árið 2003 undir forystu Sheik Yassin sem Hamas samtökin viðurkenndu de facto Ísraelsríki. Þau staðfestu það með þátttöku í kosningum 2005 og til þings 2006, þótt öðru sé haldið fram af áróðursmeisturum Ísraelsstjórnar. Kosningarnar á herteknu svæðunum fela í sér þá skiptingu sem orðin er og allir þátttakendur í palestínskum stjórnmálum viðurkenna hana og þarmeð tilvist Ísraelslríkis.

Palestína er land kraftaverkanna og hver veit hvað gæti gerst. Palestínska þjóðin þarf nýja forystu en fyrst og fremst þarf að verða grundvallarbreyting á hugarfari ísraelsku þjóðarinnar og þar eiga Bandaríkin hlutverki að gegna. Og hveir veit nema hugmynd vinstri manna í Ísrael og Palestínu um eitt lýðræðislegt ríki fyrir alla, gyðinga og araba, kristna og múslima eigi eftir að ná fram að ganga áður en yfir lýkur.

*Omar Suleiman, yfirmaður egypsku leyniþjónustunnar, hefur leitt sáttaviðræður palestínsku flokkanna. Ýmist hafa allir flokkar komið að borðinu og í önnur skipti þeir sem mestu máli skipta, Fatah og Hamas. Ég hitti að máli annars vegar forsætisráðherrann Ismaeil Hanieyh og átti langa fundi með dr. Zakaria Agha, helsta leiðtoga PLO á Gaza svæðinu sem ég hef verið kunnugur frá árinu 1990. Í október síðastliðnum lá fyrir samkomulag um öll ágreiningsmál, nema öryggismálin sem var þó í raun samkomulag um að láta liggja óbreytt framyfir kosningar. Fyrirhugaður var fundur í Damaskus og átti þar að ganga frá málum þannig að Hamas gæti undirritað egypsku tillöguna og þar með væru kosningar boðaðar innan hálfs árs. Enn hefur ekki orðið úr því. Þótt því sé harðneitað að utanaðkomandi áhrif eða þrýstingur sé nokkur, þá virðist sú afneitun fjarri veruleikanum. Hann er sá að palestínsku yfirvöldunum hefur verið hótað öllu illu af Ísrael ef þau nálgist Hamas og Bandaríkjastjórn hefur hótað að hætta öllum fjárstuðningi við Ramallah ef af samstarfi yrði. Hvort Hamas-samtökin séu undir slíkum þrýstingi frá Íran eða öðrum er erfiðara að fullyrða um, en ljóst er að báðum megin eru aðilar sem hagnast á klofningnum og þeir hagsmunir verða veigameiri eftir því sem tíminn líður.