Góður dagur

Laugardagur 10. desember 2011 | Hjálmtýr Heiðdal

Í dag samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust eftirfarandi þingsályktunartillögu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skorar Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis. Alþingi áréttar að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnir jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Alþingi krefst þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.“

Ísland verður fyrsta vestræna ríkið sem tekur þetta mikilvæga skref og verður vonandi til þess að fleiri ríki geri það líka.

Það er mikilvægt atriði í þessari ályktun að þar er skýr afstaða til réttinda flóttamanna til að snúa til síns heima. Þetta er alþjóðleg samþykkt og mjög þýðingarmikil. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í umræðunni á Alþingi um tillöguna sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins: “Í þessu sambandi má nefna að Frelsissamtök Palestínu, PLO, hafa ekki viljað viðurkenna sjálfstæðan rétt gyðinga til ríkis. Abbas sagði nýlega á Evrópuþinginu að það væri afar erfitt að viðurkenna gyðingaríki. Og þetta skiptir verulega miklu máli“.

Ragnheiður átelur Palestínumenn fyrir að vilja ekki viðurkenna Ísrael sem ríki gyðinga. Hún virðist ekki skilja að í þessu máli er það stuðningur við kynþáttastefnu síonista sem ráða Ísrael að samþykkja Ísrael sem ríki gyðinga.

Í Ísrael er um 25% íbúanna ekki gyðingatrúar eða afkomendur gyðinga. Og þeir verða að bera persónuskilríki sem sýna að þeir tilheyra ekki gyðingum. Í Ísrael eru í gildi fjöldi lagabálka þar sem réttindi íbúanna eru skilgreind eftir því hvort þeir eru gyðingar eða af öðrum stofni.

Viðurkenni Palestínumenn Ísrael sem ríki gyðinga eru þeir þar með að viðurkenna kynþáttastefnu síonismans. Ef samskonar stefna ríkti hér á íslandi jafngilti það yfirlýsingu um að 60,000 Íslendingar stæðu lakar gagnvart ýmsum landsins gæðum. Og þá er skammt undan hið rasíska slagorð „Ísland fyrir Íslendinga“.

Birtist upprunalega á bloggi Hjálmtýrs Heiðdals, stjórnarmanns Félagsins Ísland-Palestína

http://gorgeir.blog.is/blog/gorgeir/entry/1208192/