Endalok sikarí-zíonisma*

Endalok sikarí-zíonisma* Föstudagur 3. desember 2010 | Dov Yirmiya

Ég er einn af fyrrum liðsmönnum Haganah hreyfingarinnar sem eftir eru á lífi í dag. Meðlimir hennar gegndu herþjónustu í breska hernum en voru síðar meðal þeirra sem stóðu fyrir Ha’apala (ólöglegum innflutningi) á gyðingum sem lifðu Helförina af. Til þess að fá að komast til landsins þurftum við að etja kappi við breska herinn, en Bretar voru jú sigurvegarar að stríði loknu.

Sá her hafði nýlega sigrað versta óvin sögunnar og sneri nú að því að ráðast með ofsa á bátskeljarnar okkar sem lögðu upp frá ströndum Ítalíu með fólk sem hafði lifað af helvíti nasismans.

Herskipin eltu bátana, umkringdu þá, brutu þá jafnvel í spón– og skutu á þá þannig að margir farþeganna féllu og fjöldi særðist.

Og nú hef ég með hryllingi og blæðandi hjarta séð hvernig sagan endurtekur sig – en nú er hlutverkunum snúið við. Það eru hermenn og sjómenn herliðsins sem státar sig af því að vera „Varnarlið Ísraels“ sem nú ofsækja og drepa. Skömminni, grimmdinni og hræsninni sem fylgja glæpum okkar og illkvittnum lygum eru engin takmörk sett.

Ég er sárhryggur… hvernig gátum við sokkið svona djúpt?? Hvernig urðum við að óréttlátri og grimmri þjóð sem breyttist úr því að vera ofsótt í að vera sjálf ofsækjandinn?

Jú, við þessu mátti búast. Í 19 ár höfum við „sætt okkur við“ herstjórn sem ríkt hefur yfir arabíska minnihlutanum sem eftir var í landinu eftir sjálfstæðisstríðið. Þeir hafa verið sviptir eignum og þeim hefur verið mismunað. Þar á eftir fylgdu 43 ár sem einkenndust af þjóðernisrembingi sem heltók þjóð okkar eins og fíkniefni eftir sigur okkar 1967, sigur sem færði hreyfingunni fyrir Stærra Ísrael þau völd sem hún nú hefur .

Gullna tækifærið sem við höfðum sem sigurvegarar til þess að semja frið við Palestínumenn hvarf eins og dögg fyrir sólu. Fasistastjórn zíonista hefur stýrt svipað og Ítalir gerðu í Norður-Afríku, staðið í ofbeldisfullum landvinningum og misþyrmt Palestínu og þjóð hennar með landtökum sínum … En með þessum síðustu aðgerðum, grátbroslegri árás hins fáránlega zíoníska „armada“ í því skyni að herða kverkatakið á landsvæði þar sem ein og hálf milljón Palestínumanna þreyir þorrann, hefur hrokafulla smáþjóðin okkar augljóslega gengið of langt.

Sú mikla byrði óréttlætis og brjálæðislegra glæpa sem sligar hið sikaríska Ísrael mun leiða til hörmunga áður en langt um líður. Hún vinnur nú þegar að því að eyða síðustu lífsvon Ísraels í fyrirsjáanlegri framtíð. „Mene mene“, tákn eyðileggingarinnar er nú þegar letrað með blóði á veggi okkar. Vei sé börnum okkar, barnabörnum og barnabarnabörnum, að við eftirlátum þeim slíka arfleið.

.

Dov Yirmiya Nahariya er 96 ára ísraelskur friðaraktívisti og fyrrum ofursti í ísraelska hernum (IDF). Bók Yirmiya, My War Diary (1983) gegndi mikilvægu hlutverki við snúa almenningsáliti í Ísrael gegn fyrra Líbanonsstríðinu. Sama ár og bókin kom út hlaut Yirmiya mannréttindaverðlaun Emils Grundzweig fyrir baráttu sína fyrir velferð líbanskra borgara.

Einar Steinn Valgarðsson þýddi.

* Síkaríar voru gyðingar úr hópi selóta á fyrstu öld eftir Krist. Á nútímahebresku vísar hugtakið til ofstækisfullra þjóðernissinna.