Ekki láta einsog ekkert sé

Þriðjudagur 22. júlí 2014 | Sveinn Rúnar Hauksson

Í meira en tvær vikur höfum við horft upp á miskunnarlaust blóðbað á Gaza. Eitt öflugasta herveldi heims beitir hátæknibúnaði sínum, gegn nágrönnum sem eru nánast varnarlausir fyrir eldflaugum frá F-16 og árásarþyrlum, stórskota- og sprengjuárásum frá herskipum og skriðdrekum. Þessar árásir hafa nú kostað yfir sex hundruð manns lífið og um þriðjungur þeirra eru börn. Enginn er óhultur á Gazaströnd. Heimili stórfjölskyldna, skólar, bænahús, sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru sprengd í loft upp. Ekkert er heilagt fyrir Ísraelsher. Fólkið er lokað inni, einsog í risastóru fangelsi undir berum himni. Það eru1,8 milljón manns á 365 ferkílómetrum, einu þéttbýlasta svæði heims.

Sameinuðu þjóðirnar ætluðu gyðingum helming Palestínu. Við stofnun Ísraelsríkis og í stríðinu sem fylgdi. þegar yfir 700 þúsund Palestínumenn hröktust frá heimkynnum sínum, bættu Ísraelsmenn við sig fjórðungi landsins til viðbótar. Árið 1967 hernámu þeir það sem eftir var. Oslóarsamkomulagið 1993 gerði ráð fyrir að Palestínumenn fengju aftur herteknu svæðin. Við það hefur ekki verið staðið.

Það hefur sýnt sig á liðnum árum og áratugum eftir margar tilraunir til friðarviðræðna að Ísraelsmenn ætla ekki að láta 78% upphaflegrar Palestínu duga sér einsog samþykktir SÞ gera þó ráð fyrir. Með sívaxandi landráni á Vesturbakkanum og flutningi gyðinga inn á hertekinn Vesturbakkann, þvert á alþjóðalög, er sýnt orðið að ráðandi öfl í Ísrael hafa ekki áhuga á raunverulegum friðarviðræðum. Þau ætla sér allt landið, smám saman.

Þeir kalla herferðina sína núna stríð gegn Hamas, en þetta er stríð gegn palestínsku þjóðinni. Auðvitað er ekki verið að ganga ámilli bols og höfuðs á Hamas. Ísrael studdi tilurð Hamas samtakanna sem mótvægi við Arafat, Fatah og Frelsissamtök Palestínu, PLO. Enn einu sinni er Ísraelsstjórn að styrkja stöðu Hamas um leið og það sér leik á borði að spilla fyrir sáttaviðleitni milli Fatah og Hamas og eyðileggja möguleika þjóðstjórnarinnar.

En til langs tíma litið er verið að knésetja palestínsku þjóðina með grimmúðlegu hernámi sem tekur á sig ólíkar myndir. Þetta er ekkert annað en hryðjuverk, sem aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum beitir nágrannaríki. Ísland er í stjórnmálasambandi við Ísrael og þarf að horfa upp á að Palestína, ríki sem við höfum nýverið viðurkennt, herlaus þjóð, fátækt og bjargarlaust fólk sem er lokað inni og getur ekkert flúið, er beitt vopnavaldi af þvílíkri grimmd, að sjónvarpsstöðvar skirrast við að sýna allt sem viðgengst.

Hvað getum við gert? Við höldum fjölmenna mótmælafundi, einsog á Lækjartorgi fyrir viku og á Ingólfstorgi í dag. Það eru sterk skilaboð til umheimsins og ekki síst til palestínsku þjóðarinnar um að hún standi ekki ein. En dugir það til? Nær boðskapur okkar eyrum Ísraelsstjórnar sem í upphafi árásarstríðsins lýsti því yfir að ekki yrði hlustað á mótmæli út í heimi. Hvað getum við þá gert? Við skulum beita ímyndunarafli okkar og krafti til að sýna samtöðu. Við skulum styðja palestínsku og alþjóðlegu sniðgönguhreyfinguna, BDS, sem leggur til að sniðganga, hætta fjárfestingum og setja viðskiptaþvinganir á sama hátt og þegar sigur vannst á aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku. Og ef ekkert dugir hljótum við að spyrja okkur: Getum við verið í stjórnmálasambandi við ríki sem hagar sér einsog Ísrael, virðir alþjóðalög, mannslíf og mannréttindi nágranna að engu?

Við megum ekki láta einsog ekkert sé.