Um Félagið Ísland-Palestína

Félagið Ísland-Palestína var stofnað 29. nóvember 1987. Markmið félagsins var frá upphafi að stuðla að jákvæðum viðhorfum til ísraelsku og palestínsku þjóðanna og vinna gegn hvers kyns aðskilnaðarstefnu. Félagið hefur stutt baráttu Palestínumanna gegn hernámi og rétt flóttafólks til að snúa heim. Þann 18. maí 1989 náðist samstaða á Alþingi um ályktun sem fól í sér stuðning við öll meginmarkmið félagsins, tilverurrétt Ísraelsríkis og þjóðarréttindi Palestínumanna. Hér má lesa lög félagsins og hér má lesa yfirlit yfir starfsemi félagsins.

Félagið Ísland-Palestína hefur á liðnum árum staðið fyrir heimsóknum Palestínumanna hingað til lands í því skyni að kynna málstað þeirra, þar á meðal Omari Sabri Kitmitto, sendiherra PLO og séra Munib Younan, sem nú er biskup lútersku kirkjunnar í Palestínu. Að auki má nefna heimsóknir séra Mary Lawrence, bandarísks meþódistaprests sem var sjálfboðaliði í Hebron um þriggja ára skeið og Örnu Meir, ísraelskrar baráttukonu fyrir réttlæti og friði sem nú er fallin frá.

Í gegnum árin hefur Félagið Ísland-Palestína haldið ótal fundi, bæði útifundi og fræðslufundi. Félagar hafa farið í skóla til að kynna málefnin, haldnar hafa verið samkomur undir heitinu Matur og menning, hátíðin List fyrir Palestínu var haldin í Borgarleikhúsinu í maí 2002, og þannig má lengi telja. Við slík tækifæri hefur félagið jafnan notið stuðnings helstu fjöldasamtaka og í sumum tilfellum stjórnmálaflokka. Í apríl 2002 stóðu Amnesty International á Íslandi, Samfylkingin, Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, BSRB, ASÍ, ÖBÍ og Rauði kross Íslands að fjöldafundi í stóra salnum í Háskólabíó í tilefni af heimkomu tveggja stjórnarmanna félagsins úr ferð til Palestínu.

Á síðustu árum hefur meginþungi í starfi félagsins snúið að hjálparstarfi á herteknu svæðunum. Annars vegar hefur verið í gangi neyðarsöfnun frá haustinu 2000 til að styrkja hjálparstarf og hins vegar hefur félagið undirbúið og styrkt ferðir sjálfboðaliða sem hafa flestir farið til hjálparstarfa á vegum Palestínsku læknishjálparnefndanna (UPMRC), en þau samtök unnu til viðurkenningar WHO, alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar árið 2002 fyrir framlag til heilsugæslu við erfiðar aðstæður. Nú hefur tekist að safna rúmum 5 milljónum króna sem runnið hafa til hjálparstarfa og um 30 sjálfboðaliðar hafa haldið til hjálparstarfa á vegum félagsins.

Stjórn

Í aðalstjórn (kosin í apríl 2014)

  • Sveinn Rúnar Hauksson, formaður
  • Eldar Ástþórsson, varaformaður
  • Magnús Magnússon, gjaldkeri
  • Haukur Sveinsson, viðburðarsstjóri
  • Valdimar Andersen Arnþórsson, spjaldskrárritari
  • Linda Ósk Árnadóttir

Í varastjórn

  • Elva Björk Barkardóttir, ritstjóri
  • Alvin Níelsson, sölustjóri
  • Bryndis Silja, sjálfboðaliðastjóri
  • Einar Steinn Valgarðsson, kvikmyndastjóri

 

Félagsmenn

Félagsmenn FÍP eru rúmlega 800 talsins en að auki eru um 30 manns á útsendingarlista sem fá fréttabréf, fundarboð o.fl. Félagsmenn eru strikaðir út af félagaskrá ef þeir hafa ekki greitt félagsgjöld í 3 ár.

Fjármál og félagsgjöld

Palestínumenn þurfa stuðning í baráttunni fyrir lífinu og grundvallar mannréttindum sínum. Með því að ganga í félagið, taka þátt í fundum þess og aðgerðum og greiða félagsgjaldið regluglega leggur þú þitt að mörkum. Félagsgjöld eru aðal tekjulind félagsins.

Félagsgjaldið

Félagsgjaldið er kr. 3.000. Fjórar leiðir eru til að greiða gjaldið. (Sjá ‘Gerast félagi‘.)