Ekki kaupa ísraelskt

Eins og fram kom í ræðu Sveins Rúnars Haukssonar, formanns Félagsins Ísland-Palestína, á útifundi á Lækjatorgi 9. júlí s.l. er sá dagur helgaður sniðgöngu gegn ísraelskum vörum (sjá vef Boycott, Divestment and Sanctions). Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru fluttar inn vörur frá Ísrael árið 2009 fyrir 732,5 milljónir króna, sem er aukning um 38,6 milljónir milli ára. Þar af vega grunnefni til efnaiðnaðar, grænmeti, ávextir og ýmsar vélar og samgöngutæki þyngst.

Þær ísraelsku vörur sem helst standa almenningi til boða í verslunum eru landbúnaðarvörur, t.d. avókadó og greipaldin. Varast ber að þær vörur sem merktar eru „Palestinian Produce“eða jafnvel „Product of Palestine“eru oftar en ekki framleiddar af ísraelskum landtökumönnum á herteknu svæðunum en ekki Palestínumönnum, og er því um ísraelska vöru að ræða. Dæmi um slíkt eru Coral-jarðarber sem voru um tíma seld í verslunum 10–11, 11–11 og í Bónus. Auk þessa hefur Ölgerðin Egill Skallagrímsson flutt inn léttvín frá Ísrael sem seld eru í ÁTVR. Dæmi um þau eru Golan-rauðvín, sem eru framleidd á hinum herteknu Gólanhæðum.

Einnig vekur athygli að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands er árlega fluttur inn til landsins fjarskipta- og tæknibúnaður frá Ísrael fyrir tugi milljóna kóna. Þau fyrirtæki sem byggja fjarskiptakerfi sín að hluta á búnaði frá Ísrael eru Lína.net (Loftnet Línu.net) og Landssími Íslands (RAD háhraðamódem, o.fl.). Í sumum tilvikum er notandanum látinn í té ísraelskur búnaður frá þjónustuaðila kaupi hann þjónustu hans, þetta á til að mynda við um Loftnet Línu.Nets. Þá ber að geta þess að Gegnir, miðlægt upplýsingakerfi bókasafna á Íslandi, er hannað af ísraelsku fyrirtæki.

Félagið Ísland-Palestína hvetur íslenska neytendur til að vera á varðbergi og kaupa ekki ísraelskar vörur. Ef þið vitið af ísraelskum vörum á boðstólum í búðum sem ekki er getið um hér er bent á að hafa samband við félagið í tölvupósti svo hægt sé bæta þeim á sniðgöngusíðu félagsins. Gjarnar má mynd af vörunum fylgja. Oft er hægt að þekkja ísraelskar vörur á því að vörunúmerið (undir strikamerkinu) byrjar á 729. Einnig er hægt að skrifa forsvarsmönnum viðkomandi verslana kurteisislegt bréf þar sem þeir eru hvattir til að hætta sölu á ísraelskum vörum.

Meðal þeirra vara sem finnast í dag eru fersk krydd (tímían, basilikum, kóríander, o.s.frv.) í kælideild Bónus undir vörumerkinu King’s. Í Byko má finna Kapro málbönd og hallamál. Í Krónunni er breytilegt hvaðan ferskir ávextir og grænmeti eru keypt inn en í Krónunni er mjög skýrt merkt með fána og nafni lands hvaðan vörurnar koma. Sem dæmi um ísraelska ávextir má nefna avókadó frá Kedem Hadarim . Í búðum The Pier og Signature of Nature í Smáralindinni er að finna húðkrem og aðrar snyrtivörur frá Yes To, bæði Yes To Carrots og Yes To Cucumbers. Einnig vörur frá Sea of Spa og Sea of Life.

Fyrirtæki sem vitað er að selja ísraelskar vörur:

  • Bónus
  • BYKO
  • Krónan
  • The Pier
  • Signature of Nature (Smáralindinni)

Hér er safn mynda af vörum frá Ísrael sem hægt er að finna í íslensku verslunum. Smelltu á myndina til að sjá nánari upplýsingar um hvaða vöru er að ræða og hvar hún fæst.

Staðlað bréf til forsvarsmanna fyrirtækja (Word-skjal).

Sea Of SpaYes To Cucumbers.