Samstöðufundur með Palestínumönnum á Lækjartorgi 2010

Samstöðufundur með Palestínumönnum á Lækjartorgi 2010

Í tilefni alþjóðlegs samstöðudags til stuðnings hnattrænni herferð fyrir viðskiptalegri, stjórnmálalegri og menningarlegri sniðgöngu gagnvart Ísrael vegna hernáms þeirra í Palestínu stóð Félagið Ísland-Palestína fyrir útifundi föstudaginn 9. júlí kl 17.00 á Lækjartorgi.

Mannréttindarsamtök, stjórnmálaflokkar, verkalýðsfélög og ýmis frjáls félagasamtök í hertekinni Palestínu hafa hvatt heimsbyggðina til að sniðganga ísraelskar vörur og slíta menningar- og stjórnmálasambandi við Ísrael – þar til stjórnvöld þar í landi fari að alþjóðalögum og samþykkum Sameinuðu þjóðanna oghætti hernámi sínu í Palestínu. Ísraelsstjórn heldur þvert á móti áfram uppi aðskilnaðarstefnu sem gegnsýrir daglegt líf Palestínumanna og minnir sífellt meira á Apartheid-stefnuna sem ríkti í Suður-Afríku á sínum tíma.

Boycott National Committee (BNC) í Palestínu hafa kallað eftir því að föstudagurinn 9. júlí verði vakið athygli á sniðgönguátakinu um heim allan. Þennan dag verður þess minnst að sex ár verða liðin frá því að Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmdi Aðskilnaðarmúrinn sem Ísraelsher hefur verið að reisa í Palestínu ólöglegan og skyldaði jafnframt Ísraelsstjórn til að rífa múrinn þegar í stað og greiða fórnarlömbum þess, m.a. þá sem misst hafa bújarðir sínar og heimili, skaðabætur. Þennan úrskurð hefur Ísraelsstjórn virt að vettugi.

Aðskilnaðarmúrinn er ein grimmasta birtingarmynd hernáms Palestínu, sem nú hefur staðið á Vesturbakkanum og Gaza frá árinu 1967 eða í 43 ár. Múrinn er byggður á herteknu palestínsku landi á Vesturbakkanum – en ekki landamærum Ísraels og Vesturbakka Palestínu eins og stundum er haldið fram (m.a. í fréttum innlendra fjölmiðla af atburðum fyrir botni Miðjarðarhafs). Múrinn einangrar byggðir Palestínumanna, kemur í veg fyrir ferðafrelsi fólks í eigin heimalandi, að fólk geti sinnt námi, komist til vinnu eða sinnt bújörðum sínum.

Á fundinum töluðu:

  • Sveinn Rúnar Hauksson
    Læknir og formaður Félagsins Ísland – Palestína
  • Salmann Tamimi
    Tölvunarfræðingur og formaður Félags múslima á Íslandi
  • Sigurlaug Gunnlaugsdóttir
    Sagnfræðingur og baráttukona fyrir mannréttindum, m.a. gegn Apartheid í Suður Afríku á sínum tíma

Á fundinum fór fram söfnun til Geðhjálparsamtakanna á Gaza, Gaza Community Mental Health Programme (www.gcmhp.org), en Neyðarsöfnun FÍP hefur stutt barnaverkefni á vegum þeirra. Alls söfnuðust 47.714 krónur á fundinum sem renna óskertar einsog allt söfnunarfé félagsins til verkefnisins.  Reikningsnúmer Neyðarsöfnunarinnar er 0542-26-6990 en kennitalan er 520188-1349.

srh

Hlekkir:
Vefur Palestine Solidarity Campaign
Vefur Boycott, Divestment & Sanctions Campaign National Committee