Lesefni

Edward Said

Edward Said er prófessor í bókmenntafræði við Columbia-háskóla í New York og er í hópi þekktustu talsmanna Palestínumanna. Hann nýtur almennrar virðingar fyrir fræðistörf sín, og ber þar hæst bókina Orientalism, sem er sögulega yfirgripsmikil og afar fræðileg úttekt á viðhorfum evrópskra fræðimanna, stjórnmálamanna, rithöfunda og landkönnuða sem skrifað hafa um Austurlönd í gegnum aldirnar. Said telur að þessi viðhorf, sem oftar en ekki sé best lýst sem fordómum og ranghugmyndum, séu enn til staðar í vitund vesturlandabúa.

Öllu aðgengilegri er bók hans Covering Islam, sem er gagnrýni á óvandaðan fréttaflutning í Bandaríkjunum um þjóðfélög Múslima. Bókin var upphaflega skrifuð í tilefni af fjölmiðlafári í tengslum við gíslatökuna í bandaríska sendiráðinu í Teheran árið 1979, en hefur nú verið uppfærð og inniheldur fjöldamörg nýleg dæmi. Ítarlega umfjöllun Saids um sögu deilunnar milli Ísraela og Palestínumanna má finna í The Question of Palestine þar sem sagan er sögð frá sjónarhóli Palestínumanna.

Said hefur ekki legið á skoðunum sínum um ævina, og eru til eftir hann mörg greinasöfn. Greinar sínar hefur hann birt víða í dagblöðum og tímaritum, allt frá Dagens Nyheter í Svíþjóð til Al-Ahram í Egyptalandi. Eitt af eldri söfnum hans, The Politics of Disposession, inniheldur greinar frá tímabilinu 1969 til 1994. The End of the Peace Process nær yfir tímabilið 1994 til 2000. Í seinni bókinni fer það viðhorf Saids ekki leynt, að hann telur Yasser Arafat og forystu PLO í heild hafa svikið palestínsku þjóðina með Oslóarsamningunum. Bækur Saids hafa verið bannaðar af palestínskum yfirvöldum á hernumdu svæðunum. Out of Place er sjálfsævisaga Saids. Edward Said lést árið 2004.

Ísraelskir sagnfræðingar

Lengi vel eftir stofnum Ísraels var þar í landi haldið á lofti afar þjóðernissinnaðri túlkun á stríðinu 1948-1949. Sú mynd var dregin upp að vanmáttugt Ísrael hefði barist gegn ofurefli Arabaríkjanna en á endanum borið sigur úr býtum á kraftaverkakenndan hátt, rétt eins Davíð sem sigraði Golíat. Með þessari túlkun var hægt að mála harkarleg ofbeldisverk sem sjálfsvörn eða réttláta baráttu og var þetta lengi vel hin viðurkennda söguskoðun í Ísrael. Á síðari árum hafa ísraelskir sagnfræðingar tekið að gagnrýna þessa söguskoðun nokkuð, og margir þeirra gengið fram af aðdáunarverðu hugrekki í að afhjúpa grimmdarverk og margs konar óhæfu sem Ísraelskir stjórnmálamenn bera á einn eða annað hátt ábyrgð á. The Birth of the Palestinian Refugee Problem eftir Benny Morris er nákvæm og heiðarleg úttekt á því hvernig leiðtogar zíonista í Ísrael gerðu Palestínumenn vísvitandi að flóttamönnum á árunum 1948-1949.

Stórfróðleg og vel skrifuð úttekt á sögu deilunnar milli Ísraels og nágrannalandanna, séð frá sjónarhóli ísraelskra stjórnmála, er The Iron Wall eftir Avi Schlaim, sem er prófessor í Oxford á Englandi og fyrrum ríkisborgari í Ísrael. Í bókinni nýtir höfundur sér óspart aðgang að skjalasöfnum í Ísrael sem ekki voru opin almenningi fyrr en nýlega þegar leynd yfir þeim fyrndist. Titill bókarinnar er dreginn af heiti greinar eftir einn af frammámönnum zíonista á fyrri hluta 20. aldar, Ze’ev Jabotinsky, sem hélt því fram að eina leiðin til að Ísrael mætti lifa í friði væri að reisa „járnvegg“ utan um það, og beita araba innan hans og utan svo mikilli hörku að þeir neyddust á endanum til að semja um hag sinn alfarið á forsendum Gyðinga. Höfundur rekur sögu þessa hugsunarháttar allt frá valdatíð fyrsta forstætisráðherra Ísraels, Ben-Gurion, og fram til Benyamins Netanyahu, ásamt því sem rás sjálfra atburðanna er gerð góð skil. Bókin er á heildina litið afar góð greining á utanríkisstefnu Ísraels á 20. öld, og veitir lesandanum lifandi innsýn í heim þarlendra stjórnmálamanna.

Fyrir þá sem vilja fræðast um ræturnar að stofnun Ísraels, er áhugavert að skoða One Palestine, Complete eftir Tom Segev. Bókin fjallar um samskipti Gyðinga og Araba í Palestínu frá Fyrri heimsstyrjöld og fram að sjálfstæðisyfirlýsingu Ísraels árið 1948, eða það tímabil þegar Bretar réðu yfir landinu sem verndarsvæði. Palestína var á þessum tíma mikill suðupottur ólíkra menningarheima. Þessu litla og afskekta landi var svipt inn í nútímann í hvirfilvindi heimsátaka þar sem á tókust zíonistar, Arabar, Bretar, Frakkar, Tyrkir, kristnir o.fl., sem að sögn höfundar höfðu hverjir um sig sínar eigin hugmyndir um framtíð „fyrirheitna landsins“. Höfundur horfir á sögu landsins í gegnum augu ólíkra einstaklinga, bæði í Palestínu og utan hennar, og oft verður úr mjög skemmtileg tíðarandalýsing.

Annað

Ekki verður hjá því komist að minnast á framlag Noams Chomsky, sem iðulega hefur upp gagnrýnisrödd sína þegar utanríkismál Bandaríkjanna ber á góma, til umræðunnar um Ísrael, en hann skrifaði bókina The Fateful Triangle sem fjallar um tengsl þessara tveggja ríkja. Chomsky vekur máls á ýmsu sem ekki er víst að öllu sé kunnugt um, svo sem gríðarlegum styrkjum sem Ísrael hlýtur ár hvert frá bandarískum skattborgurum í formi vopnabúnaðar og fjárgjafa.

Hlutlausa og nákvæma umfjöllun um deilur Ísraels og Palestínumanna má finna í riti Marks Tessler, A History of the Israeli-Palestinian Conflict. Bókin er mjög áreiðanleg heimild í hvívetna, fer yfir sögu deilunnar frá öndverðu (mikið fjallað um Gyðinga í Evrópu og zíonisma) og inniheldur mörg greinargóð kort og töflur.

Hvað internetið varðar, skal bent á hlekkjasíðuna hér á vef félagsins.

Að lokum: Meira en nóg er til af óvönduðum málflutningi og jafnvel hreinum áróðri um málefni Palestínu og Ísraels, ekki síst á internetinu. Þeir sem eru í heiðarlegri sannleiksleit læra hins vegar smám saman að greina kjarnann frá hisminu, ef þolinmæðin er næg.

Viðar Þorsteinsson tók saman.