Staðan í samningaviræðunum í Kairó 12. ágúst 2014, þegar einn sólarhringur er eftir af 72 klst vopnahléi:
Nokkur árangur hefur náðst í viðræðunum í Kairó og meiri en margir þorðu að vona, þótt takmarkaður sé. Þannig hefur verið samið um 6 atriði af 11, en fimm atriði er ósamið um.
Það er ljóslega ekki verið að semja um að umsátrinu verði aflétt, en hins vegar að losað verði um tökin.
Þannig hefur Ísrael samþykkt að fjölga flutningabílum sem hleypt er í gegnum hlíðin með lífsnauðsynjar og annan leyfðan varning úr 250 í 600 á dag.
Þá hefur Ísrael samþykkt að leyfa palestínsku yfirvöldunum (PNA í Ramallah) millifærslu á peningum til að greiða laun til opinberra starfsmanna, sem áður heyrðu undir Hamas-stjórnina á Gaza.
Fiskveiðilögsagan verður færð smám saman út í 12 sjómílur og 500 leyfi verða gefin út mánaðarlega fyrir íbúa á Gaza til að fara um Erez-hliðið.
Þá hafa Egyptar samþykkt að opna Rafah-landamærin í samráði við forsetavörð Ramallah-stjórnarinnar, sem myndi setja á laggirnar 1000 manna lið til að fylgjast með landamærunum milli Egyptalands og Gaza.
Sjötta atriðið er að Ísraelsstjórn hefur samþykkt að láta lausan fjórða hópinn af pólitískum föngum frá því fyrir Oslóarsamkomulag (1993). Þetta hafði verið samþykkt af Ísrael í tengslum við friðarumleitanir sem Kerry stóð fyrir á síðast vetri, en síðan svikið.
Þau atriði sem útaf standa eru:
Enn á eftir að semja um mikilvæga innviði á Gaza, það er flugvöll og höfn. Ísrael leggur til að flugvallarmáli verði frestað til viðræðna um lokasamkomulag í friðarviðræðum og vill að alþjóðlegir aðilar undirbúi áætlanir um höfn. Engin árangur hefur náðst varðandi afvopnun né örugga tengingu á milli Vesturbakkans og Gaza (Safe Passage, sem Oslóarsamkomulagið gerði ráð fyrir).
Heimildir maannews.net segja Ísraelsmenn einnig vilja ræða mál ísraelsks hermanns, hvers lík sé á valdi Hamas, en palestínska sendinefndin taldi að ræða ætti það síðar.
Þessi árangur sem þegar hefur náðst, þótt takmarkaður sé, vekur vonir um að 72 stunda vopnahléð sem rennur út á miðnætti miðvikudags, verði framlengt og leiði jafnvel til varanlegs vopnahlés. En á móti kemur að Ísraelsstjórn er langt í frá sammála um þessi atriði og hefur meðal annarra Naftaly Bennet efnahagsráðherra Ísraels gagnrýnt harkalega fréttir af framgangi í viðræðunum og sagt flutning launa til fyrrum Hamas starfsmanna hættulegan.
Þegar talað er um Hamas-starfsmenn þá er í raun um að ræða opinbera starfsmenn á Gaza. Það á líka eftir að sjá hver afstaða almennings á Gaza verði við þeim fréttum að það að eigi að sætta sig við áframhaldandi umsátur, þótt svolítið verði losað um það.
Sveinn Rúnar Hauksson