frá útifundi við bandaríska sendiráðið í Reykjavík, 31. júlí 2014
Útifundur haldin af Félaginu Ísland-Palestína með stuðningi fjölda launþegasamtaka, stjórnmálaflokka, friðar- og mannréttindahreyfinga fordæmir stríðsglæpi Ísraels á Gazasvæðinu sem Bandaríkin eiga beina aðild að með hernaðarlegum, fjárhagslegum og stjórnmálalegum stuðningi.
Fundurinn skorar á Bandaríkjaforseta, Barack Obama, að stöðva blóðbaðið á Gaza tafarlaust og krefjast þess af hálfu Ísraelsstjórnar að alþjóðalög séu virt í hvívetna.
Útifundurinn gerir þær kröfur til Bandaríkjastjórnar að hún hætti að beita neitunarvaldi sínu í Öryggisráði SÞ aftur og aftur í þágu hernaðar- og útþenslustefnu Ísraels og komi þannig í veg fyrir að Öryggisráðið geti gripið inn í, stöðvað stríðsglæpi Ísraels og veitt íbúum hertekinnar Palestínu alþjóðlega vernd.
Í gær bárust þær fréttir að Bandaríkjastjórn væri að senda Ísraelsher viðbótarskotfæri í hernaðinn gegn íbúum Gazasvæðisins. Bandaríkin eru þannig ber að því að taka beinan þátt í stríðsglæpum Ísraels. Þessi skotfæri eru notuð í stríði gegn varnarlausum börnum sem eru meirihluti íbúanna á Gaza.
Útifundurinn tekur undir áskoranir forsetisráðherra Íslands til Netanyahu um að Ísraelsher leggi niður vopn tafarlaust og að blóðbaðið verði stöðvað. Fundurinn fagnar einnig yfirlýsingu utanríkisráðherra um að fundin verði varanleg lausn og friðarsátt sem grundvallist á landamærunum frá 1967. Í því felst að hernáminu linni og Ísrael skili herteknu svæðunum.
Fundurinn krefst þess að Bandaríkjastjórn hætti þegar í stað stuðningi við árásarstríð Ísraelshers gegn palestínsku þjóðinni.
Stöðvið blóðbaðið strax! Umsátrinu verði aflétt tafarlaust!
Alþjóðlega vernd fyrir Palestínumenn! Ísraelsher burt úr Palestínu! Niður með hernámið! Frjáls Palestína!
F.h. útifundar 31. júlí 2014,
Sveinn Rúnar Hauksson formaður Félagsins Ísland-Palestína.