Mannréttindi og stríðsglæpir

Sunnudagur 24. ágúst 2014 | Sveinn Rúnar Hauksson

Sprengjudrunur og gnýr í F-16 árásarþotum fylla loftið,dáinbörn og særð fylla spítalana á Gaza. Foreldrar þeirra deyja líka, einkum mæðurnar, og afi og amma láta lífið þegar heimilin eru sprengd í loft upp. Stórskotaárásir eru einnig af sjó, flotinn lætur sitt ekki eftir liggja. Þeir tala um stríð Ísraels við Hamas en það er ekki málið. Þetta er stríð gegn gjörvallri palestínsku þjóðinni.

Nú er í ljós komið eftir ísraelskum heimildum að Netanyahu og innsti hringurinn kringum hann vissi um dauða unglingspiltanna þriggja úr landránsbyggð rétt utan við Hebron aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þeim var rænt. Leyniþjónustan var líka strax með á hreinu hverja hún taldi seka og þeir hurfu nánast þegar í stað og hefur ekkert til þeirra spurst. Foreldrar þeirra telja víst að herinn hafi tekið þessa tvo ungu menn strax, og telja eins víst að þeir hafi verið pyntaðir og drepnir.

En hvernig stendur á þessari leynd? Af hverju voru foreldrar og almenningur ekki látinn vita um örlög ísraelsku piltanna strax. Samkvæmt grein á Electronic Intifada var það vegna þess að Netanyahu og hans menn vildu nota tímann til að kynda upp bál haturs og hefnda í Ísrael og til að framkvæmda alþjóðlega áróðursherferð og fá leiðtoga heimsins til að tjá sig um örlög drengjanna, kenna Hamas-samtökunum um og réttlæta þannig stórstríð gegn íbúum Gazasvæðisins undir því yfirskini að verið sé að ganga af Hamas-samtökunum dauðum.

Loftárásirnar á Gaza hafa lengi verið í bígerð en mestu öfgamönnunum í ríkisstjórn Ísraels finnst ekki nógu langt gengið. Utanríkisráðherrann heimtar allsherjarárás og innrás á Gaza.Forsætisráðherrann hefur kallað út 40 þús manna varalið vegna Gaza og flutt mikinn liðsafla að landamærunum. Í þessum skrifuðum orðum lýsir Abbas forseti því yfir að vænta megi innrásar landhers innan fárra stunda. Frumstæðar varnir andspyrnuhópanna sem skjóta sínum heimatilbúnu flaugum að Ísrael og fæstar hæfa skotmarkið, eru notaðar af Ísraelsstjórn til réttlæta lofthernaðinn. Enginn hefur þó látið lífið Ísraels megin, en á þremur dögum hafa yfir 100 manns, að stórum hluta börn, konur og aldraðir verið drepin, flest á heimilum sínum. Um sjö hundruð manns eru alvarlega særðir og sjúkrahúsin ráða engan veginn við allan þennan fjölda. Þar ríkir líka skortur á lyfjum, tækjum, varahlutum, hreinu vatni og rafmagni einsog annars staðar á Gaza sem í sjö ár hefur búið við algera innilokun, verið í herkví Ísraelsstjórnar.

Umheimurinn horfir að mestu aðgerðarlaus á grimmdarlegt framferði Ísraels. Víða fara fram mótmæli en þeir sem völdin hafa grípa ekki inn í. Það þyrfti ekki nema eitt símtal frá Obama Bandaríkjaforseta til Netanyahu forsætisráðherra Ísraels. Obama getur krafist þess að Netanyahu stöðvi blóðbaðið og semji um vopnahlé eins og gert var í nóvember 2012.

Palestsínumenn þurfa alþjóðlega vernd og þurfa hana strax. Það er góðs viti að Mannréttindanefnd SÞ hefur, einsog varlega er orðað þar, til skoðunar hvort árásir Ísraelshers á óbreytta borgara á Gaza feli ekki í sér stríðsglæpi.

Í ljósi fjöldamorðanna sem framin eru af Ísraelsher á Gaza er ekki nema von, að Abbas forseti Palestínu eigi engin önnur orð um stríðsglæpi Ísraelsstjórnar en þjóðarmorð.