Ályktun útifundar á Lækjartorgi vegna blóðbaðsins á Gaza

Miðvikudagur 23. júlí 2014 | Sveinn Rúnar Hauksson

„Útifundur Félagsins Ísland-Palestína,

haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 23. júlí 2014,

með stuðningi fjölmennustu hagsmunasamtaka landsins, stjórnmálaflokka og friðarhreyfinga,

fordæmir fjöldamorð Ísraelsstjórnar á íbúum Gaza

og hvetur íslensk stjórnvöld til að beita öllum tiltækum ráðum til að endir verði bundinn á blóðbaðið tafarlaust og umsátrinu um Gaza aflétt.

Fundarmenn heita því að gera allt sem í þeirra valdi stendur, allir sem einn, að fylgja eftir kjörorðum fundarins:

Stöðvum blóðbaðið á Gaza tafarlaust, alþjóðlega vernd fyrir Palestínumenn, umsátrinu um Gaza verði aflétt, niður með hernámið, frjáls Palestína.“

 

Ræðumaður var borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson. Þóra Katrín Árnadóttir leikkona las ljóðið Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk og kórinn Vox Palestína undir stjórn Hilmars Arnars Agnarssonar flutti sönginn Þú veist í hjarta þér, eftir Þorstein Valdimarsson. Fundarstjóri var Sveinn Rúnar Hauksson formaður Félagsins Ísland-Palestína.

Að loknum fundi var gengið að Stjórnarráðinu með minningarkrans og borða sem á eru skráð nöfn 648 fórnarlamba hernaðar Ísraels hingað til. Í fjarveru forsætisráðherra tók aðstoðarmaður hans, Jóhannes Skúlason við ályktuninni og flutti kveðju forsætisráðherra.

 

Að fundinum stóðu, auk Félagsins Ísland-Palestína:

Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Öryrkjabandalag Íslands, Kennarasamband Íslands, SFR, Verkalýðsfélag Akranes, Efling, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Dögun, Píratar, VG, Björt framtíð, Alþýðufylkingin, Samtök hernaðarandstæðinga og Menningar og friðarsamtök íslenskra kvenna.