nýjar greinar | eldri greinar

Látum okkur ekki standa á sama
- Félagið Ísland-Palestína 20 ára

10.12.2007 Tuttugu ár eru liðin síðan Félagið Ísland-Palestína var stofnað, 29. nóvember 1987. Helstu frumkvöðlar að stofnun þess voru séra Rögnvaldur heitinn Finnbogason sóknarprestur á Staðastað, sem var fyrsti formaður félagsins og Elías Davíðsson tónlistarmaður sem var ritari stjórnar fyrstu fjögur árin. Þeir eru ófáir sem komið hafa að stjórn og störfum félagsins á þessum tveimur áratugum og er þeim öllum þökkuð óeigingjörn störf. Undirritaður hefur verið þaulsetnastur í stjórn og verið þar öll árin, varaformaður fyrstu þrjú árin en síðan formaður.

Markmið félagsins eru víðtæk og snerta menningu, mannúð, mannréttindi og alþjóðamál. Mikilsverður áfangi náðist vorið 1989 en þá var samþykkt á Alþingi samhljóða ályktun um málefni Ísraels og Palestínu. Þar var lögð áhersla á að viðurkenna bæri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Kveðið var á um rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sínna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þá sagði að ályktanir Öryggisráðs SÞ nr. 242 frá árinu 1967 og nr. 338 frá árinu 1973 væru ásamt ályktuninni um skiptingu Palestínu frá 29. nóvember 1947 sá grundvöllur er skapað gæti varanlegan frið og öryggi. Þessi stefnumótun Alþingis var vafalítið sú skýrasta sem nokkurt þjóðþing í Evrópu hafði gert um rétt palestínsku þjóðarinnar og er sennilega enn.

Í framhaldi af ályktun Alþingis fór Steingrímur Hermannsson þáverandi forsætisráðherra í heimsókn til Yassers Arafat, formanns PLO og forseta Palestínu, sem þá dvaldist í útlegð í Túnis. Sú ferð var farin í maí 1990 og var Steingrímur fyrstur forsætisráðherra á Vesturlöndum til að sækja heim leiðtoga Palestínumanna. Með því djarfa frumkvæði og hugrekki sem Steingrímur Hermannsson sýndi með ferðinni til Túnis, ásamt með fyrrnefndri ályktun Alþingis, höfðu Íslendingar öðru sinni skipað sér framarlega á bekk varðandi málefni Ísraels og Palestínu. Segja má að fyrra skiptið hafi verið þegar Thor Thors sendiherra lagði fram tillögu undirbúningsnefndar að skiptingu Palestínu á Allsherjarþingi SÞ 29. nóvember 1947.

Félagið Ísland-Palestína hefur starfað að ótal verkefnum á liðnum árum sem engan veginn verða rakin í stuttri blaðagrein. Vísa má til heimasíðu félagsins, www.palestina.is

Lengi vel voru heimsóknir palestínskra og ísraelskra gesta veigamikill þáttur í starfinu: Sendiherrar PLO hafa margsinnis komið, framkvæmdastjóri Rauða hálfmánans á Vesturbakkanum og Gaza kom tvívegis, Arna heitin Meir kennari og baráttukona frá Ísrael sem starfaði fyrir börn í Jenin, Uri Davis ísraelskur fræðimaður, séra Munib Yunan prófastur frá Ramallah sem síðar varð biskup Lútersku kirkjunnar, Ziad Amro, forvígismaður í baráttu fatlaðra, svo nokkrir séu nefndir.
Frá árinu 2000 hófst skipuleg og samfelld Neyðarsöfnun á vegum félagisns. Fyrstu framlög fóru til hjálparstarfs á vegum Læknishjálparnefndanna (UPMRC), sem hafa verið helsti samstarfsaðili okkar.

Margir fleiri aðilar hafa tekið við framlögum héðan. Nefna má barnaverkefni Geðhjálparsamtakanna á Gaza, Öryrkjabandalag Palestínu, blindrasamtökin VCF, kvennasamtökin PWWSD, sjúkrahúsin Makkased í Austur-Jerúsalem og Ahli Arab Sjúkrahúsið í Gaza-borg. Til þessa hafa safnast ríflega sjö milljónir króna, einkum í frjálsum framlögum einstaklinga og fer hver króna óskert til hjálparstarfa.

Í apríl 2002 hófust ferðir sjálfboðaliða til Vesturbakkans og Gaza. Ákall kom frá Læknishjálparnefndunum um að koma og vera vitni að árásum Ísraelshers inn í borgir og bæi sem höfðu verið undir palestínskri stjórn eftir undirritun Oslóarsamkomulagsins. Á þeim fimm árum sem liðin eru hafa ekki færri en 40 Íslendingar farið í ferðir allt frá tveimur vikum upp í þrjá mánuði. Sjálfboðaliðarnir hafa starfað með ýmsum samtökum, einkum Læknishjálparnefndunum og ISM, palestínskri og alþjóðri samstöðuhreyfingu. Þá hafa verið tengsl við kristnu samtökin CPT í Hebron og alkirkjulega hjálparstarfið EAPPI. Þessi samtök eiga líka öll samstarf á átakasvæðum, til dæmis i Hebron, þar sem reynt er að verja börn og aðra íbúa fyrir árásum landtökufólks og yfirgangi hersins. Viðvera alþjóðlegra sjálfboðaliða er stundum hemill á framferði þessara aðila, þótt allur gangur sé á því.

Þessa dagana er haldin ráðstefna á vegum Bush Bandaríkjaforseta í bænum Annapolis í Bandaríkjunum og eru þar saman komnir fulltrúar ekki færri en 40 ríkja. Í brennipunkti eru málefni Ísraels og Palestínu, en önnur deilumál koma líka til umræðu svo sem hernám Ísraels á Gólanhæðum Sýrlands. Bakgrunnur fundarins er stríðsrekstur Bandaríkjanna og bandamanna í Afganistan og Írak og ekki síst stríðsundirbúningur gagnvart Íran. Fæstir gera sér vonir um áþreifanlegan ávinning fyrir fólkið sem mátt hefur búa við grimmdarlegt hernám Ísraels á Vesturbakkanum og Gaza. Annapolis-fundurinn er tilraun til að koma friðarferlinu svokallaða í gang að nýju en það hefur í raun legið niðri í sjö ár.

Palestínumenn hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að þeir eiga enga aðra leið en leita friðsamlegrar lausnar sem feli í sér réttlæti og byggi á alþjóðalögum. Ísraelsstjórn og meirihluti Ísraelsmanna telur ekki þurfa á þessu að halda. Þeir eru eitt allra öflugasta herveldi heims og njóta auk þess óskoraðs stuðnings Bandaríkjannna. Ísraelsk stjórnvöld hafa hvað eftir annað sýnt að þau telja sig hafin yfir alþjóðalög. Þátttaka þeirra í friðarviðræðum hefur stundum vakið vonir um eitthvað annað, ekki síst á meðan Rabin forsætisráðherra var enn á lífi, en hann var myrtur af eigin fólki, einmitt fyrir friðarvilja sinn.

En þegar litið er yfir öll ár friðarferlis, Oslóaryhfirlýsingar og Vegvísis til friðar, þá hafa þessi ár verið notuð til að auka á landránið, stækka landtökubyggðirnar, margfalda íbúatölu þeirra, reisa aðskilnaðarmúr, einangra íbúa Vesturbakkans frá jörðum sínum, frá heilbrigðisþjónustu og frá öðrum bæjum og byggðum. Gerðar eru árásir á íbúðahverfi, fólk fangelsað fyrir pólitískar sakir, andófsfólk og forystumenn myrtir í skipulegum árásum. Nú síðast hefur verið efnt til umsáturs um risafangelsið Gaza, þannig að nánast engum er hleypt út né inn, nauðsynjum, matvælum, lyfjum og lækningatækjum er ekki hleypt í gegn nema í mjög takmörkuðum mæli. Síðan á að loka fyrir rafmagn og flutning eldsneytis þannig að vatnsdælur stöðvast sem og skólpkerfi. Grimmd þessa hernáms er svo yfirgengilegt að orða verður fátt. Engu að síður horfir umheimurinn upp á þetta, án þess að hreyfa legg eða lið til hjálpar. Evrópa snýr sér undan.

Við þessar aðstæður boðar Félagið Ísland-Palestína til afmælisfundar í Norræna húsinu fimmtudagskvöld 29. nóvember kl. 20. Þar mæta þeir sem ætla ekki að láta sér á sama standa um örlög íbúanna á Gaza og Vesturbakkanum.

-Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður FÍP

electronic intifada

This webpage uses Javascript to display some content.

Please enable Javascript in your browser and reload this page.

upplýsingaveitur | hlekkir

>> Passia
>> Badil
>> Jews Not Zionists
>> PLO Negotiations Affairs Department
>> UN Office for the Coordination of Humanitarian Affairs - Humanitarian Information in the occupied Palestinian Territory

auglýsingWWW Palestina.is

Google
© Félagið Ísland-Palestína 2007 - palestina@palestina.is