Gerast sjálfboðaliði

Tilgangurinn með sjálfboðastarfi á hernumdu svæðunum er þríþættur:

1. Að leggja hönd á plóg í starfi þeirra samtaka sem sjálfboðaliðinn vinnur með hverju sinni.

Sjálfboðaliðar hafa hjálpað palestínskum bændum við ólífutínslu og önnur landbúnaðarstörf, annast enskukennslu í æskulýðsmiðstöð og tekið þátt í að dreifa lyfjum í hús með læknishjálparsamtökum.

2. Að veita vernd með nærveru sinni.

Óháð því hvaða störfum erlendir sjálfboðaliðar gegna hverju sinni hafa þeir ávallt jákvæð áhrif með nærveru sinni. Einstaklingur með erlent vegabréf og erlent útlit hefur hamlandi áhrif á framferði Ísraelshers, sem liggur eins og mara á daglegu lífi Palestínumanna. Það er margsannað að her og landnemar á hernumdu svæðunum fara síður fram með offorsi þegar útlendingar eru til vitnis. Þannig getur t.d. sjálfboðaliði sem fylgir sjúkrabíl á daglegum ferðum sínum forðað starfsfólki bílsins frá óþarfa töfum, handtökum, líkamsleit og árásum.

3. Að vera til frásagnar

Mikilvægur liður í starfi sjálfboðaliða er að segja frá reynslu sinni þegar heim til Íslands er komið, og ekki síður á meðan á dvölinni stendur. Fjölmiðlar hafa nær undantekningarlaust haft samband við sjálfboðaliða Félagsins Ísland-Palestína á meðan þeir hafa starfað á hernumdu svæðunum. Sömuleiðis hafa sjálfboðaliðar komið fram á fundum félagsins, veitt lengri viðtöl í blöðum og skrifað greinar um reynslu sína eftir að heim er komið. Þetta er þáttur í starfinu sem ekki má vanmeta, því bein reynsla fólks af ástandinu hefur mun meiri áhrif og segir meiri sögu en hefðbundinn fréttaflutningur fjölmiðla af Palestínudeilunni.

Félagið mælist til þess að sjálfboðaliðar dvelji ekki skemur en í tvær til þrjár vikur í ferð sinni. Reynslan sýnir að skemmri dvöl en svo skilar takmörkuðum árangri, m.a. vegna þess að það tekur ávallt ákveðinn tíma að aðlagast aðstæðunum.

Að gerast sjálfboðaliði

Félagið Ísland-Palestína gerir eftirtaldar kröfur til sjálfboðaliða sem starfa á hernumdu svæðunum með milligöngu þess:

  • Sjálfboðaliði skal vera lögráða og hafa náð 20 ára aldri.
  • Sjálfboðaliði skal vera andlega og líkamlega fær um að ferðast á eigin vegum.
  • Sjálfboðaliði skal vera meðlimur í Félaginu Ísland-Palestína og sammála markmiðum þess (samþ. á aðalfundi 2007, aðgengileg hér), að meðtalinni andstöðu við kynþáttamismunun.
  • Að auki felur þjálfun sjálfboðaliða í sér að sækja undirbúnings- og fræðslufundi með stjórn félagsins.

Fyrsta skrefið hjá nýjum sjálfboðaliða er að setja sig í samband við stjórn félagsins og óska eftir fundi. Slíkur fundur er hvorki bindandi af hálfu félagsins né sjálfboðaliðans, og félagið áskilur sér rétt til að neita sjálfboðaliða um milligöngu allt fram að því að formleg umsókn hans hefur verið afgreidd með samþykki stjórnar. Sé áframhaldandi vilji bæði hjá félaginu og sjálfboðaliðanum eftir fyrstu kynni til að skipuleggja ferð verður sjálfboðaliðanum afhent umsókn um styrkveitingu og almenna milligöngu félagsins.

Allur kostnaður af ferðinni fellur á sjálfboðaliðann og er á hans ábyrgð, þó svo félagið hafi í flestum tilfellum veitt minniháttar ferðastyrk. Öll framvinda ferðarinnar eftir að komið er til Palestínu er svo á ábyrgð sjálfboðaliðans.

Umsóknareyðublað sjálfboðaliða á Microsoft Word-formi er aðgengilegt hér.

Óskir þú eftir fundi eða upplýsingum um sjálfboðaliðastarf með ferð í huga, hafðu samband við félagið.

Scroll to Top