Neyðarsöfnun

Neyðarsöfnun Félagsins Ísland-Palestína hófst fljótlega eftir að síðari uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu hófst, eða í nóvember árið 2000. Snemma árs 2005 höfðu um fimm miljónir safnast. Aðallega er um að ræða frjáls framlög einstaklinga inn á bankareikning eða í merkt söfnunarílát.

Meirihluta söfnunarfjárins var í upphafi varið til að styrkja Læknishjálparnefndirnar (UPMRC) sem eru palestínsk grasrótarhreyfing undir forystu læknisins Mustafa Barghouti, sem er Íslendingum að góðu kunnur. Einnig hafa tvö sjúkrahús, geðhjálparverkefni fyrir börn og nú síðast stofnun blindrabókasafns verið styrkt myndarlega.

Að auki hafa sjálfboðaliðar fengið ferðastyrk til að dvelja og veita hjálp á hernumdu svæðunum í 1–4 vikur hver. Sjálfboðaliðar hafa með nærveru sinni freistað þess að bjarga mannslífum og hindra limlestingar og að hús saklausra borgara væru jöfnuð við jörðu.

Neyðarsöfnunin er alfarið rekin í sjálfboðavinnu. Kostnaður við hana er nánast enginn og fullvíst að hver króna kemst í réttar hendur. Ríkisstjórn Íslands, Rauði krossinn og Þjóðkirkjan veittu Palestínumönnum stuðning fyrir allmörgun árum en hafa síðan haldið að sér höndum þar til árið 2004 að heilbrigðisráðherra veitti hálfrar milljón króna styrk til að fjármagna hreyfanlega heilsugæslustöð á vegum Læknishjálparnefndanna.

Neyðarsöfnunin til Palestínu heldur áfram. Allir eru hvattir til að taka þátt í henni og leggja svo sem 5000 kr. inn á reikning okkar. Þeir sem njóta greiðsluþjónustu banka geta látið leggja vissa upphæð inn á reikninginn mánaðarlega.

Eftirtaldar stofnanir og samtök hafa notið styrkja úr sjóðum neyðarsöfnunar Félagsins Ísland-Palestína:

Nýlegir styrkþegar

Aisha

Aisha eru góðgerðasamtök palestínskra kvenna sem stofnuð voru árið 2009 og vinna að því að vernda, styðja og valdefla konur og börn í viðkvæmum aðstæðum. Sjá upplýsingasíðu samtakanna fyrir ítarlegri upplýsingar.

Palestine Children’s Relief Fund

Palestine Children’s Relief Fund (PCRF) var stofnað árið 1991 og veitir börnum sem ekki hafa aðgang að umönnun heilbrigðisaðstoð. Samtökin hafa sent yfir 2000 bön erlendis til aðhlynningar, sent þúsundir lækna og hjúkrunarfræðinga frá ólíkum löndum, og stutt tugi þúsunda barna með heilbrigðisaðstoð og stuðning sem þau annars hefðu ekki hlotið.

Not to Forget Women’s Society

Not to Forget er hugsjónafélag sem stofnað var í kjölfar fjöldamorðanna í Jenín árið 2002 af hópi palestínskra femínista til að aðstoða konur og börn á flótta, virkja konur til meiri þátttöku í ákvarðanatöku á samfélagslegum og stjórnmálalegum grunni, styrkja konur fjárhagslega til að taka þátt og leggja til samfélagsins, og gera réttindum kvenna og virðingu fyrir konum hærra undir höfði.

Womens’ Study Centre

Women’s Study Centre eru femínísk mannréttindasamtök sem beita sér fyrir menntun kvenna, örvunar femínískrar umræðu sem byggir á gildum félagslegs réttlætis, jafnréttis kynjanna, og viðrðingu fyrir mannréttindum.

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA)

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu, UNRWA, var stofnuð 1949 í kjölfar hörmunganna miklu, Nakba, þegar helmingur þjóðarinnar, um 750 þúsund Palestínumenn hrökkluðust frá heimilium sínum undan hryðjuverkum og landráni gyðinga. Sameinuðu þjóðirnar fundu til ábyrgðar sinnar og skipulögðu flóttamannaaðstoð hvarvetna sem palestínskt flóttafólk hafði komið sér fyrir, hvort sem var innan lands eða utan.

UNRWA hefur frá upphafi verið burðarvirki hjálparstarfs á svæðinu. Samtökin hafa séð um skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu en ekki síst neyðaraðstoð i formi matargjafa og annars sem til þarf á tímum sem þessum. Framlög til UNRWA hafa frá upphafi verið skorin við nögl.

Fyrri styrkþegar

Union of Palestinian Medical Relief Committees (UPMRC)

Samtökin UPMRC voru stofnuð árið 1979 af palestínskum læknum til að efla heilsugæslu á herteknu svæðunum. Þau eru óháð yfirvöldum og eru eitt af stærstu frjálsu félagasamtökunum (NGO’s) í Palestínu. Árið 2001 fengu UPMRC verðlaun Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar fyrir framlag sitt til heilsugæslu við erfiðar aðstæður. Formaður samtakanna er Dr. Mustafa Barghouthi, en hann heimsótti Ísland árið 2001 í boði Samfylkingarinnar. Félagið Ísland-Palestína hefur styrkt samtökin bæði með beinum fjárstyrkjum en einnig með því að styrkja íslenska sjálfboðaliða til að starfa með þeim á hernumdu svæðunum.

Visually Impaired Palestinian National Foundation (VIPNF)

Þessi samtök starfa innan öryrkjabandalags Palestínu og beita sér fyrir réttindum og hagsmunamálum blindra Palestínumanna. Formaður samtakanna er Zyad Amro, félagsráðgjafi, sem blindaðist í táragasárás Ísraelshers á Hebron-háskóla er hann var þar við nám í fyrri Intifada-uppreisn Palestínumanna. Félagið hefur styrkt VIPNF til tækjakaupa.

Gaza Community Mental Health Project (GCMHP)

GCMHP eru í fararbroddi í Palestínu á sviði geðheilbrigðismála. Þau starfa á Gaza og sinn þar geðheilbrigðismálum við mjög erfiðar aðstæður. Oft vill gleymast að hernámið ógnar ekki aðeins á lífi og limum Palestínumanna, heldur geðheilsu þeirra einnig, ekki síst barna. Félagið hefur styrkt sérstakt átak GCMHP í geðheilbrigðismálum barna á Gaza-svæðinu. Formaður samtakanna er Eyad El-Sarraj, sem er einnig þekktur fyrir skrif sín um stjórnmál.

Aðrir aðilar

Í gegnum tíðina hafa ýmsar aðrar stofnanir og samtök notið stuðnings úr söfnuninni, svo sem Makkased-spítalinn í Jerúsalem, Ahli Arab-spítalinn á Gaza og ýmis verkefni í Jenín-flóttamannabúðunum.

Scroll to Top